Fyrir ekki svo löngu pikkaði ég inn ljóð Harrys Martinson, Sæsímaskip, og setti hér á heimasíðuna, og lét fylgja þá yfirlýsingu að þetta ljóð hefði á sínum tíma gert mig að sósíalista; það hafi síðan nýlega aftur gert mig að sósíalista, eftir að ég hætti að telja mig vera slíkan. Sé það rétt að ég sé orðinn sósíalisti aftur, þá er auðvitað líklegast að ég sé einhvers konar búbblusósíalisti, vel að merkja ekki kampavínssósíalisti (ég tími ekki að blæða í svoleiðis fínerí), heldur búbblusósíalisti – það er hægt að fá ágætis freyðivín fyrir minna en tvö þúsund krónur. En hvað sem því líður, þá langar mig núna, 3. ágúst, að pikka inn aðra þýðingu Jóns úr Vör á ljóði eftir Harry Martinson. Það ljóð er mér álíka minnisstætt og Sæsímaskip, enda eiga þessi tvö ljóð ýmislegt sameiginlegt (annað en að vera fín ljóðlist, og fallega þýdd af Jóni úr Vör). Ef ég væri ekki hættur að borða kjöt sé ég alveg fyrir mér að ég myndi fá mér búbblur með káetusúpunni sem kemur fyrir í ljóðinu hér á eftir, fyrst hún bragðast ekki betur en hún gerir. Ég sé reyndar líka fyrir mér að væri ég sveittur og sótugur, eins og sjómennirnir úti fyrir Koddhöfða, léti ég mig hafa það að slafra í mig kjötsúpunni, jafnvel þótt engar búbblur væru í boði.
SJÓFUGLAR
eftir Harry Martinson
Hugsanir okkar eru sjófuglar –
alltaf á flótta.
Á meðan við spænum kjötsúpu
í káetunni okkar úti fyrir Koddhöfða
dritar gamli vinurinn okkar sjófuglinn
á skalla Rokkalklettsins –
hins aldna vegprests í hafinu,
eða dottar eins og syfjaður lundi
með nýþvegið skyrtubrjóst
niðri við Ross-sundin,
ef hann þá ekki kurrar eins og vegmóð dúfa
í eyra Karenar, hennar Karenar minnar elskulegrar
í borgarstjóraeldhúsinu í Kjerneminde.
Hugsanir okkar eru sjófuglar
og ætíð fljúga þær frá okkur;
og við sitjum í káetunni hjá Koddhöfða,
sveittir og sótugir – og kjötsúpan –
ja, ef satt skal segja, þá gæti hún verið betri.