1. september 2017

Olivier, sem nú er á landinu, skrifaði mér tölvupóst í fyrradag, þar sem hann minntist á að hann væri að lesa ljóð Fernandos Pessoa, og allra þeirra höfunda sem rúmuðust innan í Fernando. Og þá rifjaðist upp fyrir mér að um daginn snaraði ég nokkrum línum úr ensku eftir Pessoa, eða öllu heldur Alberto Caiero; það var ekki í neinum sérstökum tilgangi, heldur bara vegna þess að þær lágu svo vel við höggi, og það lá svo vel á mér. Þetta var í sveitinni, ég hafði tekið með mér Pessoa-safnið mitt (ensku þýðingarnar), og var sestur út í sólina (þótt auðvitað hljómi það ósennilega – að setjast eins og ekkert sé út í sólina í Borgarfirði, eins og það sé sjálfsagt mál að sólin skíni á þeim slóðum – hún gerir það ekki); og í stað þess að horfa út í tómið, eða til jökla eða einfaldlega bara inn á við (eins og þar sé eitthvað að finna), fletti ég í gegnum blaðsíður bókarinnar, hverja eftir annarri, þangað til ég staldraði við eitt af ljóðum Albertos Caiero. Það ljóð var í flokknum um Fjárhirðinn; þetta var ljóðið á undan Tagus-ljóðinu fræga (sem ég hafði einmitt verið að leita að, með hugann við öll þau ósköp sem nú eru að gerast fyrir Tagus-fljótið á Spáni og í Portúgal). Og áður en ég vissi af var ég búinn að rissa upp grófa snörun á þessu ljóði, sem er númer 18 í Fjárhirðinum:

 

Frekar vildi ég vera rykið á veginum,

troðið undir fótum fátæklinganna …

 

Frekar vildi ég vera áin sem rennur,

með þvottakonurnar við bakkann …

 

Frekar vildi ég vera öspin við ána,

með himininn fyrir ofan og vatnið undir …

 

Frekar vildi ég vera asni malarans,

og láta hann berja mig og fæða …

 

Frekar allt þetta en að fara í gegnum lífið

með stöðugar áhyggjur og eftirsjá …

 

Nokkrum dögum síðar, þegar ekki lá eins vel á mér og gerði í hinni ímynduðu sól í sveitinni, var ég staddur í lyftunni upp á efri hæðirnar í fjármálahverfinu; og þá varð mér hugsað til annars skálds af Íberíuskaganum, Federicos García Lorca. Mér varð hugsað til hans vegna þess að upp úr þurru hafði ég farið að leiða hugann að nautaati; og ástæðan fyrir því að ég fór að hugsa um nautaat var sú að það lá ekki nógu vel á mér. (Auðvitað er ég skálda þetta allt saman: það liggur aldrei illa á mér, ekki í þeim skilningi.) Ég fór að hugsa um hvort maður megi leyfa sér að gleðjast yfir dauða nautabana í viðureign sinni við nautið. Allajafna er ekki á minni dagskrá að gleðjast yfir dauða lifandi vera, en eitthvað í mér fagnar því að stundum hafi nautið betur í hringnum, fyrst enn er stundað nautaat á Spáni (og víðar), þetta ógeðslega sport sem afdankaðir rómantíkerar kalla list. (Lorca og hans samtíðarmenn eru auðvitað undanskildir þeirri einkunn að kallast afdankaðir – það eru aðrir tímar í dag, og það voru aðrir tímar þá.) Það eru ekki nema tveir eða þrír mánuðir síðan ungur nautabani lét lífið í hringnum; sá var baskneskur, hálffertugur – það gerðist í einhverju frönsku héraði, væntanlega rétt norðan við landamæri Spánar. En aftur að lyftuferð minni í fjármálahverfinu, þeirri sem fylgdu hinar þungu hugsanir um nautaat. Áður en lyftan opnaðist (til að hleypa mér út) hafði ég ort eitt stykki kvæði um Nautabanann (með stóru N-i, ekkert endilega þann sem dó í franska héraðinu í júní síðastliðnum, heldur bara hvern þann nautabana sem lætur í minni pokann fyrir andstæðingi sínum); og til að yrkja þetta harðsoðna kvæði notaði ég formið á hinu fræga ljóði Federicos um dauða Ignacios Sánchez: a las cinco de la tarde, osfrv. Auðvitað hljómar þetta svo að lyftuferðin hafi verið af ishigúrískri lengd – nógu löng til að gera manni kleift að yrkja heilt kvæði milli sjö hæða – en svona kveðskapur ætlast auðvitað ekki til þess að fæðingartíminn sé lengri:

 

Hversu gott að hann dó

– klukkan fimm að kvöldi.

 

Nautið drap hann

– klukkan fimm að kvöldi.

 

Hann ætlaði að aflífa það

– klukkan fimm að kvöldi,

 

til að sýnast fagur

– klukkan fimm að kvöldi,

 

en nautið varð fyrra til

– klukkan fimm að kvöldi.