12. september 2017

Fyrir nokkrum mánuðum – líklega var það fyrir ári – heyrði ég vitnað í eftirfarandi ljóð í messu í Ríkisútvarpinu. Það var ungur kvenprestur sem það gjörði. Og hún vitnaði ekki bara í eina eða tvær línur úr ljóðinu, hún beinlínis fór með það í heild sinni. Ég væri ekki að rifja þetta upp hefði það verið karlprestur sem lét sér detta þetta í hug. (Er eitthvað jafn ógnvekjandi – og ögrandi – og karlprestur?) Ég er heldur ekki að rifja þetta upp vegna þess að mér finnist að komið sé haust, það er af og frá. Ég er að þessu vegna þess að þegar ég hjólaði með Rauðarárvíkinni í morgun, þá mundi ég eftir þessu með kvenprestinn; hann rifjaðist upp fyrir mér einmitt vegna þess að ég spurði mig þeirrar spurningar hvers vegna væri ekki komið haust. Og ég fór líka að velta því fyrir mér að eitthvað hlyti að vera í ljóðinu, fyrst verið var að vitna í það í kirkjunni.

 

HAUSTIÐ

 

Haustið, hvílíkur léttir!

 

Árstíðin sem ekur í veg fyrir skóginn

sú sem leggur þér skæri í hönd

og pappír.

 

Sú sem ég þekki best

skólataskan sem ilmar

af bókum um allt sem er liðið

af leðri og gljáandi epli

og kveðju að heiman.

 

(Ansjósur, 1991)

 

Tónlist dagsins er eftir Anton Webern. Þó ekki væri nema til að láta sig hlakka til haustsins. Auðvitað ætti ég að hafa eitthvað eftir Freymóð Jóhannsson, Tólfta september, „límonaðidrenginn“, en ég var bara búinn að ákveða að hafa Anton Webern; og það sem manni dettur í hug fyrst, maður á að reyna að halda sig við það.