Í gær, 15. september, átti ég erindi í Krónuna úti á Grandagarði rétt fyrir hádegi – eins konar „hliðarerindi“. (Ég þurfti nefnilega að fara í raftækjaverslunina við hliðina á Krónunni, en sú búð var ekki opin þegar ég mætti þangað, þannig að ég ákvað að drepa tímann á meðan ég biði með því að ganga um gólf Krónunnar, jafnvel skoða þar vöruúrvalið – sem ég gerði.) Inni í Krónunni voru stödd tvö rútufylli af velsældarlegum Japönum að kaupa nýlenduvörur til að fara með út í rútu. Ég tók eftir að flestir keyptu þeir sömu vörurnar (og í einkennilega miklum mæli): harðfisk (svokallaðan bitafisk), kavíar í túbum, og Hraun og Æði (í meira magni en ég hef nokkurn tíma séð íslenska neytendur setja í sínar körfur). Ég þarf ekki að taka það fram, en í gær hlaut að liggja nokkuð vel á manni, eftir tíðindi miðnættisins í fyrradag; en burtséð frá því fannst mér allt í einu eitthvað fallegt og hjartnæmt við að sjá alla þessa Japani kaupa íslensku vörurnar í Krónunni (þótt túbukavíarinn sé vissulega ekki framleiddur hér á landi). Jafnvel þótt ég hefði persónulega ekkert á móti því að vera frá Japan – að vera fæddur þar og uppalinn, á ég við – þá gladdist ég virkilega yfir að vera Íslendingur þarna í Krónunni, þar sem ég stóð í biðröðinni við kassann og horfði á hina langt að komnu ferðamenn raða Hrauninu og Æðinu á færibandið, og síðan borga fyrir það með greiðslukortunum sínum. Ég fann til mín sem Íslendingur. En hver kom Japönunum upp á Hraunið og Æðið? Sú spurning gerðist nokkuð áleitin í huga mér. Hugsanlega leiðsögumaðurinn. Eða leiðsögumennirnir, þeir sem sátu fremst í rútunum sem biðu fyrir utan, við hliðina á bílstjóranum? Mér finnst það líklegt. Nema að í míníbarnum á hótelinu hjá Japönunum hafi verið að finna Hraun og Æði, sem þeir væru búnir með; að þeim nægðu ekki eitt Hraun á dag, eða eitt Æði; að þeir vildu meira. Núna sé ég fyrir mér (um að bil sólarhring eftir að ég fylgdist með þeim í búðinni) að þeir, Japanirnir, séu á vappi fram og aftur ganginn í rútunum sínum, glaðhlakkalegir og sperrtir (búnir að fá allar fréttir um „stöðugleika“ Sjálfstæðisflokksins: þriðja stjórnarhrun þeirra á tæpum áratug), og séu að bjóða hver öðrum upp á Hraun og Æði – og auðvitað leiðsögumanninum líka (og bílstjóranum). En eins og ég nefndi, þá er ég að gera þetta að umtalsefni hér vegna þess að það er létt yfir mér þessa stundina – það er ennþá létt yfir mér þótt gærdagurinn sé liðinn. Það er einhver hreinsun sem liggur í loftinu – manni líður eins og einhver örlítil von sé til þess að íslenskt samfélag losni við karaktera eins og BB og Brynjar Níelson úr stjórnmálum. Að vísu truflast svolítið einbeitingin á svona dögum; maður nær ekki að festa sig almennilega við annað sem liggur á skrifborðinu hjá manni, nú þegar allt leikur á reiðiskjálfi innan veggja Valhallar við Háaleitisbraut; enginn veit hvað snýr upp eða niður, þótt allir passi þeir upp á, Sjálfstæðismennirnir, að hafa Fálkanæluna nælda í jakkaboðunginn. Ég finn líka núna – afsakið (mér liggur við að segja „afsakið meðan ég æli“) – að ég er alveg að missa mig yfir ógeðsklúbbnum í Valhöll. Haldi ég áfram mikið lengur, þá er ég nokkuð viss um að ég muni missa eitthvað út úr mér sem ég sjái eftir síðar. Þess í stað ætla ég að láta nægja að vitna í orð Nínu Rúnar Bergsdóttur, dóttur Bergs Þórs, í Fréttablaðinu í dag; viðbrögð hennar við tali Bjarna Benediktssonar í Valhöll í gær: „Mér fannst hann ótrúverðugur. Í allri hans framgöngu hefur hann viljað gera lítið úr þessum málum. Mér fannst framganga hans í Valhöll í gær lýsa hroka og eiginhagsmunum. Það hefur ekki breyst frá því málið hófst í sumar.“ (Mér hefur sjálfum stundum liðið eins og ég sé við það að missa æruna í augum sjálfs mín, í öll þau ár sem ég hef pirrað mig yfir núverandi forsætisráðherra vorum, en ég held að í ljósi „nýjustu framgöngu“ ráðherrans þurfi ég ekki að hafa áhyggjur af ærumissi – ekki út af þessu að minnsta kosti. Öll reiði gagnvart þessum manni er réttlætanleg.)