18. september 2017

Popp dagsins:

Í sveitinni um helgina voru skýjamyndir yfir Strúti með allra einkennilegasta móti. Ein myndin var af ungverskum heyvagni, sem á vantaði annað hjólið – þótt ekki vantaði heyið á hann! – og til hliðar við þessa mynd, líklega í beinni línu upp af rótum Strúts, vinstra megin, mótaði fyrir auga, fremur dimmu á að líta, sem horfði í áttina að yfirgefnu hlöðunni í landi Kolstaða (þar sem ekkert hey er að finna, bara snöru hangandi úr þverbitanum í loftinu). Mér fannst eins og þetta auga væri að láta mig vita að ég ætti að endurskoða fjórða og síðasta hluta sögunnar sem ég skrifaði í sumar um þessa drungalegu hlöðu í hlíðinni – og ég er að hugsa um að taka augað á orðinu. Þegar ég sneri mér við, eftir að hafa „kontemplerað“ þessar skýjamyndir sunnudagsins, og sneri mér síðan aftur við, til að sjá hvort þær væru ennþá á himni, voru þær horfnar. Og einhvern veginn engin leið að vita með vissu hvort ég hefði sjálfur átt þátt í að forma þær.