Háværar raddir á alheimsnetinu vilja meina að maður eigi ekki að vera að tala um það sem manni finnst vont – frekar hrósa því sem er gott. Ég tek heils hugar undir hið síðarnefnda: það er full ástæða til að hrósa því sem er gott. En það er alveg jafn mikilvægt að benda á það sem er vont. Til dæmis er pistill eftir Sif Sigmarsdóttur í Fréttablaðinu í dag, þar sem hún gerir að umtalsefni hið rotna og fúla eyðingarafl Sjálfstæðisflokkinn, en kemur um leið pabba starfandi forsætisráðherra til varnar með því að benda á að það hafi ekki verið pabbanum að kenna að ríkisstjórn sonarins féll, heldur hafi sonurinn alveg séð um þann hluta atburðarásarinnar sjálfur. En ég ætlaði ekki að fara að hugsa um Sjálfstæðisflokkinn á þessum fallega rigningarmorgni. Ég er nefnilega ennþá með hugann við bíómyndina sem ég sá í gær, á ekki síður fallegu rigningarsíðdegi (segir maður annars „á síðdegi“?). Ég fór alla leið í Egilshöll. Þangað hafði ég aldrei komið áður. Að koma í Egilshöll er eiginlega reynsla út af fyrir sig – mér hafði ekki dottið í hug að þarna væri þessi svakalega „miðstöð“. Venjulega reyni ég að fara í bíó nær miðbænum, og helst reyni ég að fara bara í Bíó Paradís, því þar eru myndirnar ekki eyðilagðar með sýningarhléi; en í gær neyddist ég til að fara í Grafarvoginn, vegna þess að bíómyndin mother! var bara sýnd í Egilshallarbíóinu á þeim tíma sem ég vildi fara í bíó. (Ég veit: þetta er að verða ansi langur formáli að minni neikvæðu umsögn um útlenska bíómynd.) Ég man ekki eftir að hafa séð mynd eftir Darren Aronofsky áður. Ég hef samt reynt að gera mér einhverja hugmynd um hvers konar bíómyndir hann býr til – og kannski hafa þeir „fordómar“ mínir orðið til þess að „ég muni ekki eftir að hafa séð mynd“ eftir hann áður. En það var eitthvað í fjölmiðlaumfjöllun um þessa nýju mynd hans, mother!, sem gerði mig spenntan. Ekki bara það að minnst væri á David Lynch, Roman Polanski og Luis Buñuel í tengslum við myndina, heldur var látið að því liggja að hún kæmi verulega á óvart sem bíómynd, að í henni væri eitthvert element sem lýsti miklu hugrekki hjá leikstjóra myndar sem væri framleidd af stóru kvikmyndafyrirtæki – og svo framvegis. (Ég reyni almennt að forðast að nota og svo framvegis, en það var bara svo margt sem manni var lofað að maður myndi upplifa ef maður færi að sjá mother! að ég nenni ekki að telja það allt upp hér.) Yfirleitt þegar maður fer í bíó reynir maður að stilla væntingum sínum í sem allra mest hóf; og þarna í gær var ég alveg undir það búinn að eitthvað í mynd Aronofsky myndi fara í taugarnar á mér, að ef til vill væri í henni einhver tilgerð (sem þarf þó ekki endilega að vera vond, alls ekki), og að dæmisagan í myndinni (sem ég var búinn að lesa um í einhverjum umsögnum) væri kannski of augljós dæmisaga. En guð minn góður. Hver er þessi maður, Darren Aronofsky? Fyrir utan það (sem ég held að hljóti að vera staðreynd) að ekkert nýtt væri í myndmáli og uppbyggingu þessarar bíómyndar, þá var hinni útþvældu dæmisögu um Móður Jörð og Guð, og sjálfselsku Guðs (og hégómleika ljóðskáldins!), makað svo kyrfilega framan í mann að hið hálfa hefði verið allt of mikið. Kannski er ég (óafvitandi) að reyna að gera þetta eitthvað spennandi með því að nefna ljóðskáldið og Guð og hégómleika í sömu andránni – og líklega er ég að því (og meira að segja alveg meðvitað), því ég hvet fólk til að fara í Egilshöll til að sjá mother! eftir Darren Aronofsky. Þetta er uppbyggileg mynd í því skyni að læra hvað ber að forðast þegar „kemur að því“ að búa til bíómynd (eða bók) – hún virkaði á mig sem einhvers konar manual – mér verður núna hugsað til bókartitils Friðriks Ólafssonar um skák: Svona á ekki að tefla. En svo má líka vera að ég sé sjálfur eitthvað viðkvæmur fyrir því að fjallað sé um hégómleika ljóðskáldsins (og Guðs) í bíómynd í Egilshöll – ég, hið viðkvæma ljóðskáld, Guðinn. Það er heldur ekki óhugsandi að ég hafi látið sýningarhléð eyðileggja fyrir mér myndina, því hvað er það annað en að „leika Guð“, að slíta í sundur tveggja klukkustunda langa bíómynd með tíu mínútna hléi?