HEIMÞRÁ
Á áttundu hæð blokkarinnar í Sólheimum hlustuðum við á Buzzcocks, Magazine, Devo og Swell Maps. Ég man ekki hvað við gerðum annað, en það var kvöld, og það var myrkur; svo tókum við Swell Maps af fóninum, og settum The Fall í staðinn. Live at the Witch Trials.
Rebellious Jukebox. Repetition.* Þegar ég nefni Repetition rifjast upp fyrir mér það sem við gerðum þetta kvöld, það sem ég þóttist ekki muna áðan. Ég man eftir svarthvítu ljósmyndunum sem við skoðuðum í skini lampans í stofuhorninu, og hvaða lykt fylgdi þeim myndum; og hverjir voru með okkur þetta kvöld – og hverjar.
Ég átti sjálfur aldrei heima í Sólheimum. Það var pabbi eins okkar sem átti íbúðina (og óþarfi að taka fram að hann var ekki heima). En númerið á blokkinni er 25 – þetta er blokkin á móti bókasafninu.
*Repetition var ekki á vínilútgáfu Live at the Witch Trials, heldur einungis á endurútgáfu plötunnar, sem kom út árið 2008. Lagið er því ekki að finna á plötunni sem minnst er á hér að ofan.