12. október 2017

„Ég frétti að þú hefðir fengið bréf frá Áslaugu varðandi rússneska orðið sem þú varst að bögglast með.“

„Jú, það er rétt.“

„Og að þú hefðir algerlega verið „nappaður í bakaríinu“?“

„Stendur heima. Ég held að það sé ekki hægt að orða það öðruvísi.“

„Og hvað? Einhverjar staðreyndavillur?“

„Það má segja það, þótt auðvitað séu reglur tungumálsins ekki ófrávíkjanleg lög – jafnvel ekki reglurnar í rússnesku. Tungumálið er auðvitað valdatæki, eins og við vitum, rétt eins og skammbyssan sem yfirboðarinn beinir að gagnauga undirmannsins; og ég ætla ekki að láta „málið“ stjórna mínu lífi, hvort sem það er rússneska, enska eða Old Norse (svo ég taki bara þrjú dæmi um tungumál heimsins). Ég ætla að standa í lappirnar!

„Kannski „standa heima“ í lappirnar …?“

„Ef því er að skipta, já. Ég er „heima“ núna. En í sambandi við þetta bréf sem ég fékk, þá er ekki hægt að neita því að stafsetning mín á hinu rússneska orði mozhno var kolröng. Það er að segja ef eitthvað er að marka mína (óumbeðnu) heimild fyrir því. Mér varð á að stafsetja það svona: mojsna, eins og þú hlýtur að muna, en auðvitað er það ekki stafsett þannig. Það er stafsett svona: mozhno. Að minnsta kosti skv. reglum ísl. málnefndar. En hvað hefur ísl. málnefnd með þetta að gera? Við erum að tala um rússnesku, ekki Old Norse. Ég ætla svo sem ekki að vera að hengja mig í þessi smáatriði (sbr. hið fyrrnefnda, að ég ætli ekki að láta reglur tungumálsins stjórna mér, hvorki gjörðum mínum né hugsun); en hitt er annað mál að hið svokallaða mozhno getur líka þjónað sem svar við spurningunni „Mozhno?“ Þetta er allt spurning um tónfallið. Þegar maður er á þeim buxum að spyrja, þá spyr maður „Mozhno?“, í merkingunni „Má ég?“ eða „Má þetta?“ eða „Er það í lagi?“ og svo framvegis; og vilji maður svara þeirri spurningu, nú þá breytir maður bara um tónfall, en segir samt sem áður „Mozhno“ – í merkingunni „Já já, það má.“ Eða „Alveg sjálfsagt mál,“ osfrv.“

Stutt þögn.

„Ég tók eftir því að í gær – það var eftir að flugvélin kaffærði samtal okkar um nýja popplagið – að þá allt í einu „leið dagurinn“; mig minnir að það hafi verið orðað eitthvað á þá leið að „svo hafi dagurinn liðið“.“

„Það er rétt. Þetta fór ekki heldur framhjá mér. Mér varð reyndar hugsað til setningar úr bók eftir Halldór Laxness, þegar ég sá þessi orð, „Svo leið dagurinn“. Eða, eins og það var víst: „Svo líður dagurinn“. Þetta minnti mig á setningu úr Íslandsklukku Halldórs Laxness, setningu sem er í mínum huga einhver sú eftirminnilegasta í öllum Halldóri Laxness (jafnvel þótt hún komi ekki úr Kristnihaldi undir Jökli). Það er reyndar orðið ansi langt síðan ég las Íslandsklukkuna, og ég man ekki alveg hvar þessi setning kemur fyrir í bókinni; og kannski kemur hún ekkert fyrir í henni: ég man að ég leitaði að henni fyrir nokkrum árum, með því að fletta hratt í gegnum bókina – ég vissi, eða þóttist vita, að setningin væri í lok eins kaflans – en ég fann hana ekki. Ég þarf að leita aftur. En ef við gefum okkur að minni mitt sé virkt 30 ár aftur í tímann, þá var setningin í Íslandsklukkunni svona: Svo sarð hann konuna. Auðvitað eru fleiri minnisstæðar setningar í þessari bók, ekki síst úr munni Péturs þríhross á miðilsfundinum, en …“

„Bíddu nú við! Pétur þríhross kemur ekki fyrir í Íslandsklukkunni.“

„Hvar kemur hann fyrir?“

„Það er ekki miðilsfundur í Íslandsklukkunni.“

„Ég held samt að þessi setning um konuna (og væntanlega Jón Hreggviðsson; það hlýtur að vera hann sem er falinn á bakvið hann í setningunni) sé sú sterkasta í Íslandsklukkunni. Og til þess að gera í öllum Halldóri Laxness.“

„Það getur hugsast. Það má alveg vel vera. Svo leið dagurinn.“

„Í dag?“

„Ég er að tala um það sem á eftir að gerast.“

„Dagurinn er nú reyndar varla byrjaður að líða. Mér finnst eins og hann fari einhvern veginn allt of hægt af stað.“

„Þá er bara að hraða á honum. Smá músík á fóninn?“

„Mozhno.“