„Eitthvað rámar mig í að í einum „kaflanna“ hafi verið kosningaspá fyrir 28. október næstkomandi? Og nú er sá dagur í minni fjarlægð en himinninn frá jörðu í skáldsögum íslenskra raunsæishöfunda. Og engin ný spá, nema þær sem birtast reglulega í einhverjum fölsuðum (íslenskum) fjölmiðlum.“
„Það er rétt. Það er kominn tími á nýja spá. Hvað eru flokkarnir margir?“
„Sem munu komast inn á þing?“
„Já, eða …“
„Sjö.“
„Ókei. Þá skiptast atkvæðin sem hér segir: Flokkur fólksins 6%, Framsóknarflokkur (100 ára) 9%, Miðflokkur 8%. Hvað eru þetta mörg prósent?“
„23%. Og komnir þrír flokkar.“
„Allright. Samfylking 16%, Vinstri græn 19%, Viðreisn 6%, Sjálfstæðisflokkur (Brynjars Níelssonar og Vilhjálms Bjarnasonar) 26%. Píratar 9%.“
Þögn.
„Þá er 1 prósent eftir.“
„Það skiptist á milli Alþýðufylkingar og Bjartrar framtíðar. BF fær 0,9 og Alþ.f. 0,1.“
„En þetta eru 9 flokkar.“
„Sjö þeirra komast inn á þing. En gerðu það … getum við ekki haft hvíldardag í dag? Bara ein spurning. Heldurðu ekki að það sé pláss fyrir Þjóðkirkjuna í húsnæði Valhalla við Háaleitisbraut?“
„Hvað áttu við? Er þetta nú ekki svolítið brött spurning?“
„Jú. En mér er sagt að í húsinu við Háaleitisbraut 1 séu svo margar tannlæknastofur að í landinu (á Íslandi) séu ekki nógu margir tannlæknar til að fylla þær stofur. Væri ekki hugmynd að koma Þjóðkirkjunni fyrir í öllu þessu húsnæði – með því að senda tannlæknana eitthvað annað?“
„Geir Waage líka?“
„Geir Waage er ekki tannlæknir.“
„Ég átti við hvort ekki væri hægt að koma allri Þjóðkirkjunni fyrir í Valhalla-húsnæðinu.“
„Geir Waage líka?“
„Bara allri kirkjunni. Jónas Kristjánsson er búinn að segja sig úr henni – tvisvar.“
„En þú?“
„Bara einu sinni.“
Aftur þögn.
„Við keyrðum í Mosfellsdal í gærkvöldi, við …“
„Kom Ó með?“
„Já. Við fórum að heimsækja J og R. Þau eru í heimsókn frá Danmörku, og búa í sumarbústað þaðan sem útsýni er til Mosfellskirkju. Það var varla að það væri nógu mikið bensín á bílnum. Við þurftum að taka „neyðarbensín“ á Enn einum. Það voru þung „skref“.“
„En hvað? Af hverju ertu að rifja þetta upp?“
„Vegna þess að þegar við stóðum við leiði Halldórs Laxness – við fórum að skoða það; ég hafði aldrei komið áður – þá var himinninn svo nálægur að það brakaði í kirkjuspírunni. Svo sást til borgarinnar – hún logaði í frumaftansólinni.“
„Frumaftan …? En ætlaðir þú ekki að segja frá einhverjum bókum?“
„Jú. En þegar við stóðum þarna í Mosfellskirkjugarði í gær, þá fór Ó að tala um Innansveitarkróniku, og sú (ólesna) bók greip hug minn allan, og ég fór að hugsa um hana ólesna. Samt hafði ég bætt við bókabunkann sem ég ætlaði mér að tala um. Ég var meira að segja búinn að finna línurnar í Henderson the Rain King sem kveiktu á „báðum hliðum“ Joni Mitchell í flugvélinni – ég hafði ætlað að segja frá þeim. Það er skemmtileg saga. En þetta verður allt að bíða. Ég fékk meira að segja Kalak eftir Kim Leine í gær; hann J gaf mér hana.“
Þögn.
„Engin músík?“
„Nei.“