27. október 2017

„Starfandi forsætisráðherra talar um að það sé raunveruleg hætta á vinstristjórn. Veistu hvað hann á við með því?“

„Hann á við að á Íslandi geti myndast óeðlilegt ástand.“

„Og það viljum við ekki.“

„Ekki hann heldur. Þess vegna er hann að vara við þessu.“

„En má hann það? Svona rétt fyrir kosningar?“

„Ég veit það ekki. Ég er reyndar búinn að kjósa sjálfur, og mig grunar að mitt atkvæði hafi ekki verið mjög heppilegt.“

„Sem sagt óheppilegt?“

„Líklega óeðlilegt. Ég varð bara svo hræddur um daginn – ég býst við að það hafi eitthvað ruglað mig í kollinum.“

„Hvað meinarðu? Hræddur? Léstu einhverja hræðslu ráða því hvað þú kaust í kjörklefanum? Greip um sig einhver ótti vegna þess að þú varst staddur í Smáralind?“

„Smáralind hefur hugsanlega haft einhver áhrif, en það sat ennþá í mér hræðslan frá því um daginn þegar ég horfði á bíómyndina Butch Cassidy and the Sundance Kid í Ríkissjónvarpinu. Um þessa tvo myndarlegu menn sem rændu hverja lestina á fætur annarri, og banka líka, eins og ekkert væri sjálfsagðara. Eins og það væri alveg fullkomlega eðlilegt. Og það var ekki bara þeim sem fannst það eðlilegt; þeim sem voru rændir fannst það eðlilegt líka. Meira að segja vinkonu þeirra (sem var kærasta annars þeirra, en eiginlega kærasta þeirra beggja) fannst það líka eðlilegt.“

„Ansi klókt hjá Ríkissjónvarpinu að sýna svona mynd rétt fyrir kosningar! En þeir voru samt drepnir í lokin, var það ekki, ræningjarnir?“

„Jú. Það var samt aldrei sýnt þegar þeir voru drepnir, þannig að kannski eru þeir bara ennþá á lífi.“

„En af hverju varðstu hræddur?“

„Ég veit það ekki. Mér leið bara eins og hjónunum í leikriti Arthurs Miller, A Delicate Balance, sem urðu allt í einu svo óskaplega hrædd, án þess að hafa hugmynd um hvers vegna.“

„Þetta lagast. Það verður komið eðlilegt ástand – aftur – eftir helgina. Þjóðin ætlar ekki að fara að leyfa einhverjum að hækka skatta á fólkið í landinu. Á þjóðina sjálfa. Hún mun ekki leyfa það.“

„Þjóðin?“

„Hún vill stöðugleika. Ég ætla aftur á móti að leyfa mér – í algeru leyfisleysi – að birta hérna ljóð úr nýútkominni bók með þýðingum Gyrðis Elíassonar á ljóðum Ko Un, Sorginni í fyrstu persónu. Og taka það út fyrir svigann.“

„Þú átt við: út fyrir gæsalappirnar?“

„Alveg rétt.“

 

FUGLAHRÆÐAN

Á haustakrinum lítur fuglahræðan út einsog gestur.

Á vetrarakrinum lítur fuglahræðan út einsog betlari.

En ekkert er fjær sanni.

Þegar þú telur þorpsbúana, einn, tveir …

verðurðu líka að telja fuglahræðuna með.