Þegar rússneska ljóðskáldið Osip Mandelstam sneri aftur til heimaborgar sinnar, Pétursborgar, eftir að hafa ferðast um Krímskagann, Armeníu og Georgíu, sagðist hann hafa snúið aftur til borgar sinna „æskuveikinda og tára / borgarinnar sem hann þekkti eins og æðarnar á handarbaki sínu.“ Aldrei hafði mér dottið í hug að maður kynni að þekkja æðarnar á handabökum sínum; þetta gaf mér alveg nýja mynd af líkama mínum, þótt ekki geti ég sagt að ég hafi farið að skoða mínar eigin æðar eitthvað nánar – viðkvæmni mín gagnvart blóði, og almennt öllu því sem ég veit að á sér stað inni í líkamanum, myndi frekar senda mig í ferðalag til Armeníu eða Pétursborgar, en að ég færi að kynna mér betur mitt eigið æðakerfi. Ég var reyndar hálfpartinn staddur í Moskvu í gærkvöldi. Ég horfði nefnilega á bíómyndina Elenu eftir Andrey Zviagintsev, í þriðja skiptið – hin skiptin tvö voru fyrir þremur eða fjórum árum, og þá tvö kvöld í röð. Ég var búinn að lofa mér að nota ekki mjög sterk orð, eða hástemmd, yfir þessa mynd – færi svo að ég myndi gera hana að umtalsefni hér – en ég verð að fá að sleppa mér í þetta skiptið (án þess þó að sleppa taki á sjálfum orðunum; ég held að þau segi sig alveg sjálf). Allar hinar myndir Andreys Zviagintsvev, The Return, The Banishment, og Leviathan, eru eftirminnilegar á svipaðan hátt og Elena; en í mínum huga er Elena sú fyrirferðarmesta (í fínstillingu sinni og látleysi) – það er ótrúlegt næmi sem þessi leikstjóri hefur fyrir myndrömmum, samtölum og hljóðum – ég er sjálfur enginn sérstakur aðdáandi Philips Glass, en í þessari mynd hentar tónlist hans sérlega vel taktinum í sögunni, og það er mjög fallegt hvað krunk í kráku í miðri Moskvuborg getur verið áhrifamikið. Eins og mörg skáldverk sem maður hrífst af, þá fjallar þessi mynd einfaldlega um færslu fólks milli staða, og milli laga í tilveru sinni; og með því að leyfa skoðun sinni á hreyfingum persónanna að liggja fyrir utan rammann, nær höfundurinn að hreyfa við öllum stöðvum í huga manns – og hugsanlega breyta flæðinu í æðakerfinu. Nýjasta mynd Andreys Zviagintsev, Loveless, vann verðlaun (Jury prize) á Cannes núna nýlega. En hér er kynning á Elenu: