26. nóvember 2017

Sögusvið Fjarverunnar: Hlemmur og nágrenni

 

 

 

 

 

Ljóðskáldið á daginn … Ég held ég fari alveg örugglega rétt með að þetta sé titill á bók eftir Jóhamar. Þetta hlýtur að vera einhver besti titill frá upphafi titla. Og mér verður stöðugt hugsað til hans – oftast að degi til.“

„Áttu við að kvöldið og nóttin sé tími ljóðskáldsins, en ekki dagurinn?“

„Ábyggilega. Ljóðskáldið hefur ekkert leyfi til að leggja allan sólarhringinn undir sig. Ekki er rafvirkinn að störfum um niðdimma nótt. Eða hvað …?“

Eða hvað mundi ég líka hugsa í því sambandi. Ég býst við að múrarinn sé sofandi yfir hánóttina, en það er annað mál með rafvirkjann.“

„En talandi um titla, þá hafði ég verið að hugsa um að skrifa hér stuttan þátt undir titlinum Morðið í stálvöruversluninni (sú hugmynd varð til þegar ég var staddur í Brynju á Laugaveginum um daginn), en tvennt varð til þess að ég endurskoðaði þá ákvörðun. Í fyrsta lagi var ég ekki viss hvort orðið stálvöruverslun væri notað yfir verslanir á borð við Brynju, Húsasmiðjuna eða Byko; og í öðru lagi lenti ég í svolitlu atviki í einni af þessum verslunum í gær (sem var þó ekki Brynja við Laugaveginn); atviki sem mér fannst allt í einu meira virði að segja frá en einhverju morði í „stálvöruverslun“ – það er alltaf verið að fremja þau, hvort sem er.“

„Og hvað gerðist?“

„Nú, ég þurfti að kaupa tappa í vegg, fyrir skrúfu, til að hengja upp málverk, svona múrtappa, þannig að ég gekk upp að bláklæddum starfsmanni í „stálvöruversluninni“ og bað hann að aðstoða mig. Ég spurði hvort þeir væru með múrtappa. Og hvað heldurðu að starfsmaðurinn hafi sagt?“

Túrtappa?“

„Já. Hvernig er hægt að heyra M sem T?“

„Og hvað sagðir þú?“

„Þegar hann þóttist hafa heyrt túrtappa?“

„Já.“

„Ég leiðrétti hann. Ég sagði: Nei, ég átti við múrtappa. Og þá sagði hann: Það hlaut að vera – við seljum ekki túrtappa. Þú færð þá í Krónunni, sem er hérna rétt hjá.“

„Og hvað svo?“

„Þegar hann sýndi mér múrtappana, þá sagði ég: Þeir eru ekki gefins.“

„Sem þeir voru væntanlega ekki, er það?“

„Nei, þeir kostuðu 7 krónur stykkið.“

„Sem sagt ekki gefins.“

„Svo sannarlega ekki. 7 krónur vildu þeir fá fyrir stykkið.“

„Og þú hefur væntanlega keypt fleiri en einn?“

„Ég keypti fjóra. Þannig að heildarkostnaðurinn var 28 krónur. Svo kom reyndar í ljós að ég hefði þurft að kaupa fleiri. Ég er að fara í það núna. En aftur að ljóðskáldinu „á daginn“. Ég hitti Þórdísi Gísladóttur um daginn – það var að degi til, upp úr klukkan fimm í jólaboði Bjarts (spurning hvort dagurinn hafi verið liðinn) – og við töluðum um Rauðarárstíginn. Rauðarárstígurinn er ábyggilega ein áhugaverðasta gata Reykjavíkur, hvort sem það er fyrir ljóðskáld, rafvirkja, múrara eða rakara. Ég tala nú ekki um fyrir skáldsagna- og leikritahöfunda – Rauðarárstígurinn er uppspretta skáldskapar og hárvaxtar.“

Uppspretta hárvaxtar er fáránleg samsetning orða.“

„Ég veit.“