Nú er svo komið fyrir mér að ég hef verið boðaður í spjall í Ríkisútvarpinu í dag. En hvað á ég að segja þar? Það fyrsta sem mér datt í hug var að tala um Rilke og ljóðið hans Lébarðann (eins og Helgi Hálfdanarson vill hafa það) – það var einmitt verið að tala um Rilke í sama útvarpsþætti um daginn, um samband hans og Rodin; einstaklega skemmtilegt spjall – og það er alveg ástæða til að tala um Rilke í tengslum við bókina sem var að koma út, því án Rilke væri til dæmis ekkert fyrsta ljóð í bókinni – bókin myndi einfaldlega byrja á ljóði nr. 2, og svoleiðis bækur getur verið snúið að lesa, sbr. það þegar maður drekkur úr glasi, þá verður maður alltaf að byrja á fyrsta sopanum. („Aldrei taka fyrsta sopann,“ er einhver einkennilegasta ráðlegging sem ég hef heyrt.) Ég gæti haldið áfram með þessa líkingu: án fyrsta reyksins verður sígarettan ekki reykt, og svo framvegis. Mig minnir reyndar að ég hafi nefnt þetta með Rilke áður hér á síðunni; en ég hef tilhneigingu til að endurtaka það sem ég hef gert áður. Ég hef meira að segja byrjað aðra ljóðabók á ljóði sem „gerist“ á Rauðarárvíkinni, eins og Öfugsnáði gerir. Og núna er ég að hugsa um að halda því áfram. Næsta ljóðabók, sem með réttu ætti að koma út eftir fimm ár, mun rísa upp úr hafsvæðinu milli Sæbrautar og Kjalarness (milli Sólfarsins og Esjunnar). En af hverju Lébarðinn? Ég veit ekki betur en að í upphafsljóði bókarinnar minnar komi fyrir simpansi. Og trillusjómaður í blárri peysu, eins og sjómaður. Ef tími gefst til mun ég ræða þetta í útvarpinu í dag. Ég þurfti annars að fara í nýlenduvöruverslun núna snemma í morgun (mig vantaði kaffi); þetta var svona búð sem er opin allan sólarhringinn; og hvað ætli hafi blasað við manni þegar „maður“ kom þangað? Langborð þakið bókum í plasti. Eins og ósjálfrátt (það var ósjálfrátt – óþarfi að nefna eins og í þessu tilviki) leitaði ég að minni eigin bók; ég átti ekki sérstaklega von á að sjá hana, því mig grunaði að ljóðabækur væru hafðar út undan í svona búð; en hvað fann ég? Ég fann bókina. Að vísu lá hún á hvolfi – á grúfu – ólíkt öllum öðrum bókum á borðinu; en hún var þarna samt. Og ég sneri bunkanum við; ég lét framhlið bókarinnar snúa upp. Eftir á að hyggja sá ég ekki fleiri ljóðabækur á borðinu í búðinni, en kannski gaf ég mér ekki tíma til að skima eftir þeim – mér lá á að ná í kaffið. En er þetta ekki alveg týpískt? Ljóðabókinni (hugsanlega þeirri einu í búðinni) er snúið við til að viðskiptavinir taki síður eftir henni. Stríðinu gegn ljóðinu er hvergi lokið. Það fer fram í nýlenduvöruversluninni – 24 stundir dagsins.