Þetta skyldmenni hafði haft það hlutverk innan fjölskyldunnar að vera vandræðamaðurinn, ef ekki beinlínis svarti sauðurinn þá að minnsta kosti drukkni frændinn; sá sem börnin hlökkuðu til að fá í heimsókn, af því hann kom alltaf færandi hendi, en fullorðna fólkið kveið fyrir. Honum – sem í augnablikinu er að rifja þetta upp (ætli sé ekki best að byrja að nefna hann með nafni: við nefnum hann Bé) – þykir sagan af frændanum ekki leiðinleg, þessi fáránlega saga af afabróðurnum. Einmitt vegna þess hversu fáránleg hún er.
Frændinn, sem hér er nefndur Lalli, hafði farið í veiðiferð. Svo oft hefur Bé velt þessari sögu fyrir sér – því þetta er nefnilega saga sem maður rifjar ekki bara upp heldur veltir fyrir sér – að hann hefur látið sér detta í hug að gera eitthvað við hana; hugsanlega koma henni á framfæri við einhvern sem gæti stuðlað að því að koma henni yfir í myndrænt form. Þyrlan, vatnið, hinn tilhlökkunarblandni ótti sem hafði grúft sig yfir fjölskylduna heilan sólarhring eins og dimmblár, fagur skuggi; allt var þetta efni í sögu eða kvikmynd; og ekki síst þáttur litla drengsins sem að lokum fann frændann á lífi við vatnið á undan þyrlunni, falinn bakvið runna, eins og dauðan að sjá, en aldrei meira lifandi, því hann, hinn drukkni frændi, vissi að þessi saga myndi fylgja sér það sem eftir væri. Hann hafði verið afgreiddur í huga fjölskyldunnar sem dauður, og hávaðinn í þyrlunni varð upp frá því í huga hans – en ekki fjölskyldunnar – tákn um lífið með stóru L-i.
„Dáinn maður rifjar ekki upp eitthvað sem gerðist á meðan hann var á lífi.“ Þau orð frændans, sem féllu í einni heimsókn hans til bróðurdóttur sinnar, eru eins og brennimerkt í huga Bé; hann hafði setið í eldhúsinu með systur sinni og borðað gamalt snakk sem Lalli frændi hafði fært þeim systkinunum; og Lalli hafði staðið í dyragættinni og blandað saman frásögnum af sjálfum sér úr nútíð og þátíð, angandi af einhverju sterku, sem í endurminningu Bé voru kökudropar.
(úr seinni hluta smásögunnar Forstofan, Gegnum símann – Dulnefnin 2016)