Gamanmál á sunnudegi
(eða Ekkert gamanmál á sunnudegi, alveg eftir því hvernig á það er litið)
Mér finnst gott að vera niðri við höfn. Það er eitthvað úr æsku. Í dag gerði ég smá stans við höfnina norðan við Kaffivagninn, og horfði til austurs, í átt að Hörpu og Landsbankahúsinu sem verið er að byggja við hliðina á Hörpu. Þegar mér varð litið til vinstri (í norðurátt) sá ég skilti frá Faxaflóahöfnum sf., sem á stóð að frjálst væri að veiða fisk á bryggjunni. En þar var líka varað við því að fara glannalega – samt ekki orðað þannig – og bent á að nota björgunarvesti ef maður dytti í sjóinn. Þetta um björgunarvestin var orðað svona:
Björgunarvesti er hægt að fá hjá hafnarverði á hafnarvoginni.
Ég var kannski í einhverju ákveðnu skapi þegar ég las þetta, en samstundis langaði mig til að eiga svolítið við textann, og krota yfir tvo stafi í setningunni, þannig að hún yrði svona:
Björgunarvesti er hægt að fá á hafnarverði á hafnarvoginni.
Mig langaði í raun mjög mikið til að láta til skarar skríða. Gott ef ég var ekki farinn að leita í vösum mínum að tússpenna, eða einhverju áhaldi sem ég gæti notað til að skrapa af h-ið og j-ið. En ég er löghlýðinn borgari – og prúður. Ég hef það ekki í mér að eyðileggja, eða fara illa með hluti í umhverfi mínu, og allra síst hluti sem ég ber ekki ábyrgð á sjálfur. Mér fannst ég samt þurfa að gera eitthvað, þar sem ég stóð þarna. Þess vegna henti ég mér í sjóinn, í stað þess að krota yfir stafina á skiltinu. Áður en ég stökk gekk ég úr skugga um að enginn sæi til mín. Ég veit að ég ber ábyrgð á sjálfum mér, og hefði þess vegna með góðri samvisku getað látið mig sökkva til botns þarna við bryggjuna, en ég gerði það ekki. Skortur á karakter, veit ég að einhver hugsar. Ég veit það vegna þess að ég hugsaði það sjálfur. Það var við illan leik sem ég komst aftur á þurrt land. Illan leik? Það er einkennilegt orðatiltæki.