Herra Ó segir að ég eigi að skrifa endurminningar mínar. En herra B, sem er ég, segir að það sé alger vitleysa. Ég myndi ekki muna neitt ef ég reyndi. Fyrir utan að ég hef ekki lifað neitt sem gæti komið öðrum að gagni með því að lesa um það. Svo hættum við Ó að tala um þetta. Og nú er það gleymt. Þetta er heldur ekki það sem ég ætlaði að gera að umtalsefni á föstudegi. Ég hef nefnilega verið að hlusta á músík; músík sem frændi hefur oftar en einu sinni sett á fóninn undanfarna daga, hún er eftir Rússann Alexander Borodin. Frekar að skrifa endurminningar hans, segi ég. Borodin var efnafræðingur sem skrifaði tónlist í frístundum sínum, á meðan ég – svo ég nefni bara einhvern af handahófi til að bera saman við Borodin – hef atvinnu af því að skrifa (samt ekki tónlist), og sinni efnafræðinni einungis eftir vinnu. Þessi plata sem frændi hefur verið að hlusta á kemur úr stórum kassa frá Deutsche Gramophone, sem honum áskotnaðist í gegnum ákveðin fjölskyldutengsl fyrir mörgum árum – reyndar óþarfi að hafa fleiri orð um það (og óþarfi að hafa um það nokkur orð; þetta var í raun alger útúrdúr, og ég varla byrjaður að segja frá því sem ég ætlaði að segja frá). En allavega. Það er ekki hið undursamlega tónaljóð Borodins, Á steppum Mið-Asíu, sem hann, frændi, hefur verið að hlusta á (á milli þess sem hann hefur gaukað að börnunum í fjölskyldunni rauðum og bláum ópalpökkum – og líka á meðan – hann gerir það alltaf þegar hann kemur í heimsókn – og óþarfi að láta sér detta í hug að hann geri það í þeim eina tilgangi að kaupa sér vinsældir). Og á meðan hann hlustar á tónlistina lygnir hann aftur augum, og ég hef jafnvel séð hann laumast með hendina í jakkavasann, til að ná sér í Ópal, því hann er alltaf með einn pakka á sér sjálfur; hann kaupir hann eflaust í sömu ferð og hann kaupir pakkana fyrir börnin. En þá að mér. Þangað til fyrir tveimur dögum var Á steppum Mið-Asíu eina tónlistin sem ég þekkti eftir Borodin; ég hlustaði oft á Steppuljóðið með gömlum vini mínum einu sinni; sá átti miklu meira af klassískri tónlist en ég – ætli við höfum ekki verið um tvítugt þegar þetta var. En eins og ég sagði, þá var það ekki Á steppum Mið-Asíu sem frændi hefur verið að hlusta á inni í stofu. Þegar ég heilsaði upp á hann núna í fyrradag, þar sem hann sat í stólnum inni í stofuhorninu (og lygndi aftur augum, og stakk upp í sig Ópal, osfrv.), spurði ég hann hvað þetta væri sem hann var að hlusta á, og hann sagði mér að þetta væri fyrsti strengjakvartett efnafræðingsins, númer eitt. „Hljómar vel,“ sagði ég; og frændi svaraði: „Bíddu bara þangað til þú heyrir númer tvö.“ Og núna er ég búinn að hlusta á númer tvö. Hvernig frændi sagði mér frá honum gerði mig spenntan. Og ég komst að því að ég þekkti einn kaflann úr þeim kvartetti, þinn fræga þriðja kafla, Notturno. Það þekkja allir þá tónlist. Þannig að það var ekki bara Á steppum Mið-Asíu sem ég þekkti eftir Borodin, heldur líka Notturno-kaflann úr öðrum strengjakvartetti hans – ég bara vissi ekki að sú tónlist væri eftir Borodin. En nú má reyndar segja að það sé komið að því sem ég ætlaði að tala um á þessum föstudegi. Ég fór nefnilega á youtube, og fletti upp á Borodin, og hlustaði á hitt og þetta, mér til mikillar ánægju. Svo fór ég á amazon, hið breska, til að kíkja hvað væri þar í boði með tónlist Borodins; og skoðaði meðal annars þriggja geisladiska box frá Brilliant-útgáfunni með kammermúsík efnafræðingsins rússneska. Mig langaði mjög mikið til að eignast þann kassa – en hef ekki látið eftir mér að panta hann. (Ég þori eiginlega ekki lengur að panta vörur frá útlöndum, eftir að lenti í „bleytimeðferð“ hjá Póstinum fyrir nokkrum vikum – en meira um það síðar.) Nú, en svo er ekki meira með það. Það sem meðal annars vakti athygli mína þegar ég skoðaði upplýsingarnar utan á kammermúsíkkassanum á amazon, var hversu margir nafnar Alexanders (Borodins) komu að flutningi tónlistarinnar. Það voru ekki bara tveir eða þrír „Alexanderar“, heldur mun fleiri. Ég held ég hafi aldrei séð jafnmarga Alexandera samankomna á jafnlitlum fleti og utan á CD-boxinu. Ég verð reyndar að afsaka mig núna: ég hef ekki meiri tíma til að vera að velta þessu fyrir mér í augnablikinu, ég þarf að fara út í búð; en ég ætla að líma þessar upplýsingar (sem ég náði í annars staðar á netinu, ekki á amazon) hér inn í færsluna, til glöggvunar þeim sem ef til vill trúa því ekki að það hafi verið fleiri en tveir eða þrír Alexanderar sem spiluðu músík nafna síns í kammerboxinu. Ég er ekki góður að telja, en mér sýnist þeir vera átta talsins:
Cello – Alexander Gotthelf (tracks: 2.5 to 2.8, 3.1, 3.2)
Cello [Moscow Trio] – Mikhail Utkin (tracks: 3.6 to 3.8)
- Composed By– Alexander Borodin
- Ensemble– Moscow Trio* (tracks: 3.6 to 3.8), Moscow String Quartet (tracks: 1.1 to 2.9)
- Liner Notes– Malcolm MacDonald
- Piano– Alexander Mndoiantz (tracks: 1.5 to 1.7)
- Piano [Moscow Trio]– Alexander Bonduriansky (tracks: 3.6 to 3.8)
- Viola– Alexander Bobrovsky (tracks: 3.1, 3.2)
- Viola [Moscow String Quartet]– Igor Suliga (tracks: 1.1 to 3.2)
- Violin– Alexander Polonsky (tracks: 3.1 to 3.5)
- Violin [Moscow String Quartet]– Alexander Detisov (tracks: 1.1 to 3.5), Alexander Gelfat (tracks: 1.1 to 2.9), Alexander Osokin (tracks: 1.1 to 3.5)