Tríó Chris Speed á að spila í Mengi, Óðinsgötu, 5. nóvember næstkomandi. Hér er upptaka með tríóinu:
Svo er mér sagt að fjallað verði um nýjustu skáldsögu Gyrðis Elíassonar í Kiljan í kvöld, Sorgarmarsinn, einhverja bestu og skemmtilegustu skáldsögu sem ég hef lesið lengi. Ég hélt fyrst að sú saga ætti að fjalla um mig, þar sem aðalpersóna hennar vinnur við auglýsingatextagerð (eins og ég gerði einu sinni), og er einhvers konar tónskáld eða tónlistarmaður (eins og ég þóttist einu sinni vera, áður en ég laug mig inn í auglýsingabransann); en ég veit ekki hvort ég hefði haft jafn gaman af sögunni og ég hafði hefði þetta verið raunin: að hún fjallaði um mig. En þetta er eitthvað sem er framundan, Chris Speed og Kiljansspjallið um Sorgarmarsinn. Á liðnum dögum hefur frændi frændans (moi) verið svo upptekinn í frístundum sínum við að horfa á myndir og leikrit, og lesa bækur, að ég gæti ælt, bara alveg eins og Jódínus Álfberg (Kiljans) gerði af því hann hafði of mikið af palísander inni á heimili sínu. Ég hafði ægilega gaman af Ellý í Borgarleikhúsi. Ég skemmti mér svo mikið að ég hefði getað ælt yfir leikhúsgestinn fyrir framan mig. En af því maður verður að finna að hlutunum – að minnsta kosti einum hlut – þá fannst mér algerlega ótækt að súperdægurlagið Vegir liggja til allra átta fengi ekki að fljóta með í sýningunni. Þátturinn um Vilhjálm bróður Ellýjar var mjög fínn í leikritinu – Vilhjálmur var smartur í Royal-búðingslitum leðurjakkanum – en það hefði mátt sleppa því að syngja lagið Söknuður. Það er ekki lag til að sakna úr svona fínni sýningu, og átti alls ekkert heima innan um alla hina tónlistina. En þá hef ég lokið kvörtunum mínum. Ég las Listamannalaun eftir Ólaf Gunnarsson. Sagan af Steinari Sigurjónssyni og áformum hans um að kaupa sér hjólhýsi (og taka bílpróf) er algert bíó. Og þá meina ég bíó, því það verður að gera kvikmynd upp úr þeirri sögu. Svo les ég Skáldsögu 11, bók 18 eftir Dag Solstad. Á ensku. Af þeim höfundum sem leyfa sér að láta áhrif frá Thomas Bernhard skína í gegnum textann sinn finnst mér Dag Solstad fara einna best með það. Og hvað hef ég gert fleira? Bók Arnar Ólafssonar um Guðberg Bergsson er furðulegur samsetningur. En það þarf ekki að þýða að hann sé vondur. Ég treysti mér ekki alveg til að dæma um það. En núna er ég búinn að tala allt of mikið um bækur (og ætla að láta staðar numið í því, áður en ég freistast til að láta lesendur vita hver er höfundur orðanna um þorpið (í getraun minni frá liðnum dögum), þar sem búðirnar litlu líta út fyrir að vera lokaðar, en eru opnar. Því enginn hefur reynt að geta upp á því. Bara enginn. Ekki nokkur maður). Og fyrst ég hef lokað á allt frekara bókaspjall, þá liggur auðvitað beint við að hafa músík; og fyrir valinu verður tónskáld vikunnar, Edgar Varèse. Ég eignaðist nefnilega nýlega gamla vínilplötu með útgáfum Roberts Craft á tónlist Varèse, þar sem Varèse sjálfur frumflytur sitt yndislega rafljóð, Poème Electronique; ég átti þetta áður í annarri nýrri útgáfu, en þessi útgáfa höfundarins, og öll Robert Craft-platan, fíraði svo mikið upp í mér að annað hefur ekki komist fyrir á spilaranum síðustu daga. Hér er Poème Electronique: