Rúm vika líður, og frændi hefur setið í stól sínum í horninu allan þann tíma, hlustað á Borodin-spóluna sína (úr Panasonic-tækinu sem hann eignaðist á Kanarí 1973), og … og hvað annað? Systkinabörnin hafa ekki látið sjá sig. Tvö þeirra fóru í útilegu með skólanum, og frænda dettur helst í hug að þau hafi neitað að koma aftur í bæinn. Hann hefur skilning á því. Og nú er laugardagsmorgunn, næstum hádegi. Sem hann situr í stólnum rekur hann augun í texta af blaði sem eitt barnabarna Halldórs (meira um hann síðar) kom með; en barnabarnið, Pujec (meira um hann síðar sömuleiðis), er að bera út Morgunblaðið í Hlíðunum; og það blað er einmitt blaðið sem frændi hefur fyrir framan sig á borðinu. Pujec fékk grænan Ópalpakka, hálfan, að launum fyrir blaðið. (Ég hefði látið hann hafa óopnaðan pakka, en frændi átti ekki svoleiðis. Líklega átti drengurinn þó ekki skilið nema hálfan pakkann, því tvo hluta blaðsins vantaði: íþróttakálfinn, og atvinnu- og fasteignaauglýsingarnar. Reyndar barnakálfinn líka. Samt ólíklegt að hann, Pujec, hafi sjálfur haft not fyrir atvinnu- og fasteignaauglýsingarnar, og þess vegna haldið honum eftir fyrir sig. En hvað veit maður?) Frændi hefur rekið augun í eftirfarandi orð í blaðinu:
Það er eitthvað mikið að í opinbera kerfinu á Íslandi og þá gildir einu, hvort um er að ræða ríki eða Reykjavíkurborg. Birtingarmyndir þessa vanda eru margar en þær sjást nær daglega í almennum fréttum af því, sem er að gerast í samfélaginu.
Og jafnvel þótt frændi sé á miðjum aldri, rúmlega það, undrast hann eitt atriði í þessum tveimur setningum sem hann hefur lesið. Hann slekkur á spólunni, og rýnir betur í textann. Hvað er með þessa kommusetningu? Hann veit hver er höfundur textans, það er tekið fram hver hann er, og ljósmynd höfð með til að taka af allan vafa; og hann þykist líka vita að höfundurinn, Styrmir Gunnarsson, flokkist sem hægrimaður í pólitískum skilningi (þótt tiltölulega nýlega hafi Styrmir notað orðið ógeð yfir starfshætti og hugarfar hægrimanna á Íslandi); en það sem frændi skilur alls ekki er staðsetning kommanna (greinarmerkjanna) í texta Styrmis. Af hverju er komma á eftir gildir einu í fyrri setningunni, en ekki eftir á Íslandi? Og sömuleiðis á eftir fréttum af því í seinni setningunni, en ekki eftir eru margar? Why? Frændi verður eitt spurningarmerki í framan. Og spyr sig líka þeirrar spurningar af hverju hann fór að hugsa um að Styrmir væri hægrimaður. Kemur það þessu eitthvað við? Er kommusetning Styrmis hægrisinnuð kommusetning? Frændi þykist vita að hún, kommusetningin í pistli Styrmis, sé að minnsta kosti íhaldssöm. Og næsta spurning hans er sú hvort hann sé hugsanlega sjálfur einhvers konar íhaldsmaður? Hann situr hérna í stólnum í horninu, tilbúinn að ýta aftur á play á kassettutækinu, og hefur borgað Pujec litla heilan (eða hálfan) Ópalpakka fyrir eintak af Morgunblaðinu (hálft eintak). Ætti hann ekki að vera að gera eitthvað annað? En í sjálfu sér er að hann að gera eitthvað annað; hann er að velta fyrir sér hinni einkennilegu kommusetningu Styrmis Gunnarssonar. Er ekki tilgangur kommusetningar sá að aðstoða þann sem les við lesturinn? Benda honum á hvar hikið í setningunni á (eða ætti) að vera? Það er engu líkara en að Styrmir sé að reyna að rugla lesandann í ríminu, að skemma fyrir honum lesturinn. Frændi ákveður að fara ekki lengra í pistlinum. Hann snýr sér að kassettutækinu og ýtir á play. Hann dettur beint inn í, lokahendingarnar í forleiknum, að Prins Igor og heldur áfram að hugsa, um setningar Styrmis, þegar aría Galitzkys, hefst. (Áhrifavaldurinn Styrmir. Skyldi Styrmir nota semíkommur? Og hvar ætli hann komi þeim fyrir í setningunni? Nei, líklega forðast Styrmir að nota semíkommur, því þeir sem nota þær eiga á hættu að vera kallaðir semíkommar. En frændi hefur ákveðið að lesa ekki lengra í pistli Styrmis, og þess vegna veit hann í raun ekki hvort semíkommur séu hluti af greinamerkjabúri Styrmis. Frændi er þrjóskur. Ef honum mislíkar eitthvað, þá snýr hann sér að öðru.) En það var búið að lofa því að segja eitthvað um Halldór og Pujec. Það var lofað því. En það verður að bíða betri tíma. Ekki það að stundin sem líður sé eitthvað verri tími en sá sem er óliðinn – en best að vera ekkert að hugsa um það.