Þegar umsjónarmaður síðu (sem bróðir vill ekki kalla heimasíðu; hann bara vill það alls ekki – og nú man ég ekki hvað svona heimasíða kallast), þegar hann, umsjónarmaðurinn, kom að frænda sofandi í hornstólnum í morgun, skimaði hann yfir blaðið sem grey kallinn hafði verið að lesa áður en hann sofnaði; og hann rak augun í nokkrar línur í blaðinu sem frændi (þá væntanlega vakandi) hafði strikað undir með 0.7 skrúfblýantinum sínum. Línurnar er að finna í „innlendum“ leiðara Friðriku Benónýsdóttur í vikublaðinu Mannslífi (ég veit: ég ræð ekki við mig, eftir að Þórarinn Eldjárn – sjá síðustu færslu – nefndi íslenskt tímarit í einhverri sögunni sinni þessu nafni, Mannslíf); leiðarinn nefnist Um hvað mega skáldsagnahöfundar skrifa; og línurnar sem undirstrikaðar voru eru þessar: „Rithöfundar eru ekki fræðarar, það er ekki þeirra hlutverk að berjast gegn óréttlæti heimsins og það er ekki okkar hlutverk að hefta listrænt frelsi þeirra, hversu vel sem við meinum með því. Við verðum að geta gert þá kröfu til okkar sem lesenda að við kunnum að skilja á milli skáldaðs veruleika og þess veruleika sem við hrærumst í alla daga. Til hvers ættum við annars að lesa skáldskap?“ Nú þegar frændi er enn sofandi – sem hann hefur verið grunsamlega lengi, samt ekki dáinn – veit ég ekki hvort hann sofnaði út frá þessum línum Friðriku í blaðinu; en ég upplifi þetta þannig (og vil ítreka í leiðinni að mér fannst ekkert syfjulegt við þessi leiðaraorð) að hann, frændi, hljóti að hafa beitt blýantinum sínum með það fyrir augum að ég læsi orð blaðamannsins, og gerði jafnvel eitthvað við þær. Og það er ég að gera núna. Ég er að setja þau á netið. Á síðuna sem nefnd er eftir frænda. Ég hafði verið að hugsa um að hafa bara músík – það er nefnilega föstudagur (svartur föstudagur) – og mér hafði verið hugsað til lags með hljómsveitinni Steely Dan, Black Friday; en mér fannst það ekki alveg nógu spennandi lag til að hafa; og kannski er það einmitt ástæðan fyrir því að ég greip tækifærið og ákvað að láta „rödd“ frænda í stólnum heyrast. En þið ættuð að heyra hljóðin í honum þessa stundina. Það eru ekki beinlínis hrotur sem koma upp úr honum, eða frá honum – þetta er eitthvað annað. Samt ekki hryglur. Mér verður hugsað til Edgards Varèse. Og kannski ætti ég að hafa tóndæmi með honum, Edgard Varèse? Nei, ekki í dag. Ég las annars annan leiðara blaðs í morgun, eftir ritstjóra Stundarinnar, Jón Trausta; hann er um agent Bandaríkjaforseta á Íslandi, ritstjóra Morgunblaðsins. Og það vill svo til að ég horfði á þrjá þætti í gærkvöldi á Netflix um forseta Bandaríkjanna, og sögu hans og líf, og leiðina að því embætti sem hann gegnir. Það var eins og að horfa á Dallas. Þá á ég við þættina um J.R. og Bobby og alla þá – vondu kallana og góðu (ef það voru þá einhverjir góðir kallar í Dallas). Leiðari Jóns Trausta fjallaði einmitt um tvo vonda kalla, Bandaríkjaforseta og ritstjóra Morgunblaðsins, sem yrðu þó alveg örugglega mjög góðir hvor við annan ef þeir hittust. Guð hvað væri gaman að sjá þá hittast. Að sjá þá saman. Það yrði eitthvað. Eins og það var gaman að sjá ritstjóra Morgunblaðsins (sem þá gegndi einhverju öðru embætti) og George W. Bush saman. „Gaman saman“? Er þetta ekki lína úr texta með Deildarbungubræðrum? Að minnsta kosti rímorð úr texta með Deildarbungubræðrum. En hvert verður lag dagsins? Cab it up! með The Fall. (Ég veit ekki af hverju ég hafði aldrei heyrt þetta lag áður, ég er búinn að eiga þetta á plötu í 30 ár.) Gjörið svo vel: Cab it up!