Fyrstu línurnar í fyrstu útgefnu bók minni eru svona: Nú þegar amma er hætt / að borða meðulin sín / og farin að stíga dans, osfrv. Ljóðið heitir Danskvæði. Ég nefni þetta hér og nú, bara vegna þess að mig langaði til að árétta eitt atriði, í framhaldi af nokkru sem ég heyrði eða las í gær, nefnilega orðatiltækinu að kalla ekki allt ömmu sína. Ég man ekki í hvaða samhengi ég heyrði þetta eða las, og auðvitað kannaðist ég við orðalagið (hver kannast ekki við það? jú, hugsanlega ekki fólk yngra en þrítugt); en þetta minnti mig á að ég hef alltaf kallað allt ömmu mína. Og ekki bara í þeim skilningi að ég sé smeykur við allt, að mér blöskri allt í kringum mig, og láti mér allt fyrir brjósti brenna, og svo framvegis, heldur kalla ég í raun allt í umhverfi mínu, bæði fólk og hluti – jafnvel frænda sem situr úti í horni og hlustar á Borodin úr kassettutækinu – ömmu mína. Ekki alltaf upphátt, en samt. Það er orðið langt síðan ömmur mínar létust, svo langt reyndar að ég man ekki hvort ég var vanur að ávarpa þær „amma“ eða „amma mín“ – ég efast reyndar um það – en hvað um það: elskulegar ömmur mínar báðar koma þessu ekkert við. Þótt móðuramma mín hafi á vissan hátt verið fyrirmyndin að ömmunni í fyrstu línunni í fyrstu bókinni minni, þá var það ekki hún sem ég var að yrkja um. Ég var að yrkja um allt. Allt annað. Vegna þess að ég kalla allt ömmu mína. Ég er smeykur við allt. Og blöskrar allt – að minnsta kosti flest. Ég segi ekki að ég gangi um götur bæjarins og bendi á hlutina í kringum mig, blaðrandi um að þetta eða hitt sé amma mín; ég er heldur ekki í því að kynna vini mína fyrir móður minni með þeim orðum að þeir séu amma mín, ekkert svoleiðis. Ég færi aldrei að snúa út úr orðum Ladda og halda því fram að „ég sé amma mín“. Ég vildi bara koma þessu að – að ég kalli allt ömmu mína. Upphaflega ætlaði ég (hér í dag) að tala um hina frábæru skáldsögu Milkman eftir Önnu Burns, einhverja bestu (útlensku) bók sem ég hef lesið lengi – og auðvitað dettur mér í hug núna að ég hefði átt að segja Milkman eftir Ömmu Burns (sem er þó ekki alveg í mínum stíl, held ég) – en þetta verður að bíða; nú hef ég eytt allri orkunni í að láta vita af þessu með „ömmuna“ og allt það. Ég ætlaði líka að minnast svolítið á frænda, sem festi á sér litlafingurinn milli play-takkans og fast forward-takkans á kassettutækinu í gærkvöldi – ég skil ekki hvernig hann fór að því – en nú vinnst ekki tími til þess (að segja frá því).