Ég verð að segja það. Það er með aðdáun – og nokkurri furðu (ég verð líka að segja það) – sem ég horfi á eftir frænda lauma sér út úr stofunni, í gegnum vængjahurðina, á meðan ég skenki afa morgunákavítið sitt, þar sem hann situr í ytra horni stofunnar. Afi heitinn er skiljanlega ekki oft í stofunni hjá okkur – hinir látnu koma og fara, svolítið eftir hentugleikum, virðist vera – en þegar hann birtist, þá geri ég alltaf ráð fyrir því, að minnsta kosti frekar en ekki, að frændi standi upp úr sínum stól, og láti sig hverfa. Mér finnst eins og það hafi gerst oftar núna í seinni tíð. Kannski hefur það eitthvað með augnaráð afa að gera; hvernig hann horfir á frænda (á meðan hann bíður eftir að ég færi honum snafsinn), og brosir út í annað þegar frændi horfir með löngunaraugum á kassettutækið, án þess að geta með góðu móti leyft sér að ýta á play, því hann veit að afi þolir ekki tónlist. En líklega er þetta allt ímyndun í sjálfum mér. Ég gæti allt eins trúað að ekkert af þessu gerist. „Ef þú færðir mér nokkur staup í viðbót,“ sagði afi einu sinni við mig (vitandi ósköp vel að það má ég ekki gera; hann má ekki fá meira en eitt staup í einu, þótt eitt staup í viðbót myndi bara gera honum gott, býst ég við), „þá myndi ég eflaust hafa það af þótt hann spilaði þetta fiðlusarg sitt.“ Kannski átti hann við að honum fyndist músíkin í raun og veru fín? Ég veit samt að hann gæti aldrei játað slíkt frammi fyrir frænda, eða hverjum sem er; ef tónlist ætti að hljóma hér í stofunni, þá þyrfti hún að vera valin af afa. En núna er ég kominn út af sporinu. Ég hafði ætlað mér að lýsa því hvernig frændi lét sig hverfa. (Ég veit þetta hljómar fremur dramatískt, en þetta er það sem gerist: hann hverfur.) Allt í einu er hann bara staðinn upp úr stólnum. En ætli hann hafi ekki rekið sig í eitthvað á leiðinni að stofuhurðinni, því ég heyrði eitthvert hljóð sem fékk mig til að snúa mér við, þar sem ég stóð yfir afa heitnum. Ég veit samt ekki hvað hann ætti að hafa rekið sig í. Ég þykist líka vita að hann hafi vitað að ég vissi af honum þarna, því hann gætti sín á að horfa ekki til baka þegar hann smeygði sér út um vængjahurðina. Hann horfði heldur ekki í gegnum glerið í hurðinni þegar hann var kominn fram á gang; það var augljóst að hann vildi forðast augnsamband við mig. Ég hafði komið brennivínsstaupinu fyrir á borðinu hjá afa; og lagði síðan flöskuna frá mér við hliðina; og tiplaði í átt að hurðinni, til að sjá hvert frændi væri að fara. Ég fylgdist með honum ganga framhjá skenknum háa vinstra megin við eldhúsdyrnar, þeim sem ásamt konsúlsborðinu á móti rammar af ganginn langa inn í dýpri enda íbúðarinnar; hann gekk mjög hægum skrefum yfir mottuna rauðu, þar sem Gunni frændi var alltaf vanur að leika sér við hinn framliðna þegar hann var barn (þann sem aldrei fékkst upp úr barninu hver var); og þegar hann (frændi) kom að svefnherbergjaganginum leit hann til beggja átta, eins og til að ganga úr skugga um að enginn sæi til hans (sem auðvitað var óþarfi, því það var enginn annar í íbúðinni, að frátöldum mér og afa – afa sem í sjálfu sér var ekki þar). Án þess að líta til baka gekk frændi síðan að baðherbergisdyrunum, tók í húninn og opnaði, og lét sig hverfa fremur snöggt þangað inn. Ég veitti því athygli að húnninn að utanverðu var lengi að snúast upp, líkt og frændi tæki sér tíma hinum megin við hurðina til að ákveða hvort hann væri að gera rétt. Eða svo ímyndaði ég mér. Svo ímynda ég mér. Hann hlýtur að hafa tekið rétta ákvörðun. Ég bíð við vængjahurðina í á að giska fimm, sex mínútur; og kannski bætast við nokkrar mínútur enn áður en ég ákveð með sjálfum mér að frændi sé í raun og veru horfinn. Bless, frændi. Þangað til næst. Ef það verður eitthvert „næst“. (En af hverju „aðdáun“ og „furða“? Nefndi ég þau orð ekki áðan? Jú. En líklega gerði ég það vegna þess að mér dytti aldrei í hug sjálfum að láta mig hverfa svona. Enda alltaf upptekinn við að skenkja fólki ákavíti – lifandi og liðnum.) En áður en ég forða mér sjálfur – af síðunni – geng ég yfir í borðstofuna, þar sem „sú gamla“ hefur lagt á borð fyrir næsta sunnudag – ég veit ekki af hverju ég tek þennan krók yfir í borðstofuna; kannski er ég eitthvað órólegur – svo fer ég aftur yfir í setustofuna – afi horfinn úr stólnum; maður veit aldrei hversu lengi hann staldrar við í einu (hann er þó greinilega búinn að fá sér úr staupinu – og kannski búinn að taka einn slurk úr flöskunni, sem stendur við hliðina á staupinu) – og ég leyfi mér að ýta á play-takkann á Panasonic-tækinu – og hvað heyrist þá? Það er eins og frændi hafi passað sig á að skilja kassettuna eftir „mitt á milli þátta“ í tónlistinni, því þegar ég tek fingurinn af takkanum hefst um leið þriðji þáttur fyrri strengjakvartetts Borodins, fluttur af sjálfum Borodin-kvartettinum: