Í vefútgáfu The Guardian í morgun eru nokkrir „aðilar“ beðnir um að velja eftirlætisjólalögin sín, og þeirra á meðal er Sarah Cracknell, söngkona hljómsveitarinnar St Etienne. Í þriðja sæti, á tíu laga lista, setur hún lag með Vashti Bunyan, Coldest night of the year; númer fjögur er Elvis, Blue Christmas; og í sjötta sæti er lag sem ég (ekki frændi; hann er ennþá á klósettinu) var einmitt að hlusta á í gær, oftar en einu sinni: Winter með The Rolling Stones. Ég, sem í tvo eða þrjá áratugi hef reynt að tala sem mest vont um The Rolling Stones (nema auðvitað Charlie Watts, smartasta trommuleikara rokksögunnar, hvorki meira né minna) – ég að spila lag með The Rolling Stones …? En það er svo gaman að geta verið sammála Söru Cracknell um eitthvað svona. Hér er myndskreytt útgáfa af Winter með The Rolling Stones, með sérstökum Mick Taylor-hala fyrir aftan. Ég ætla annars að athuga með frænda inn á baðherbergi – mér finnst ekki gott ef hann ætlar að vera þar yfir hátíðarnar (alveg burtséð frá því hvort ég þarf sjálfur að nota b-herbergið).