ÓORT LJÓÐ UM SKIP SEM SEKKUR
Það mun fjalla um gamla brandarann um viðskiptahallann sem siglir að landi, og hvernig sá brandari verður allt í einu að harmleik einn daginn þegar stóri Eimskipafélagsfraktarinn strandar úti á Rauðarárvíkinni eftir nokkra daga í hafi, og sekkur – fer undir yfirborð sjávar með alla sína gáma – og allir farast. Það verða þó ekki skipverjarnir sem farast. Þeim verður bjargað upp í þyrlu, eins og forseta landsins, þegar honum var hent í sjóinn, og einhver björgunarsveitin bjargaði honum upp úr, eins og til að sýna hvað hún gæti; og þannig séð verður því ekki um neinn harmleik að ræða. Ég hef á hinn bóginn séð fyrir mér að þetta óhapp muni hafa mun djúpstæðari áhrif í landi – og þess vegna mun ég taka þannig til orða að allir á föstu landi farist – ég veit að það er fulldjúpt í árinni tekið, en samt – hvort sem gámarnir um borð í skipinu sokkna verði hífðir upp úr lestinni eða ekki, og jafnvel þótt hluti af varningnum skili sér óblautur í land. Ég sé fyrir mér manneskju á miðjum aldri – þess vegna yngri – æpa upp yfir sig, og harma ófenginn hlut sinn. Ég veit að einhver á skrifstofu skipafélagsins á eftir að beygja bak sitt yfir flóknum tölum á skrifborðinu, tölum sem fá á sig mynd einhvers allt annars en bara talna. Ég sé líka fyrir mér – og veit að sú lína mun halda sér í endanlegri gerð – að fiskarnir í sjónum muni synda framhjá skipinu – jafnvel ofan í lestina – og ekki hafa hugmynd um nokkurn skapaðan hlut. Og þrátt fyrir að maður eigi aldrei að skila einhverri ákveðinni niðurstöðu í ljóði, allra síst í lokalínunum, þá veit ég að lesandinn á eftir að gera sér grein fyrir að ég er að skrifa um einhvern gamlan, fúlan brandara – viðskiptahallann og allt það – en að yrkja um eitthvað allt annað.