Maður reynir allajafna, sem einstaklingur og höfundur, að opna sig sem minnst tilfinningalega. Ekki síst á þessum væmnivæddu tímum. En ég verð samt að segja að allt í kringum dauða Davids Bowie hefur haft ansi sterk áhrif á mann. Á mig. Á „mann“ og „mig“. Ég finn reyndar núna að það sem mig langar til – eða dettur í hug – að segja í framhaldinu er betur látið ósagt. En það er í lagi að hugsa það. Enda er ég bara að tala við sjálfan mig. Þetta með áhrifin stendur aftur á móti: þau voru mjög sterk. Og allt hefur breyst / ekkert hefur breyst. Nei, það var öfugt: And nothing has changed / everything has changed. Og nú fer ég að hugsa um eitthvað allt annað. Ég fer að hugsa um Alexíus Árnason, fyrsta lögreglustjóra í Reykjavík, og hvers vegna í ósköpunum honum datt í hug, næstum einni og hálfri öld eftir að hann dó, að hrella föður minn um miðja nótt. Föður minn, sem hafði ekki hugmynd um hver þessi maður var. Og þaðan af síður að húsið sem þau mamma bjuggu í við Skólavörðustíginn var reist á sama bletti og húsið sem Alexíus lét reisa í kringum 1865: Bergshús (sjá Þórberg Þórðarson og allt það). Alexíus birtist pabba í svefnherbergisdyrunum, sem fyrr segir um miðja nótt. Og pabbi varð dauðhræddur, hann sem hafði aldrei játað neina trú á drauga eða handanlíf. Þegar hann fór að kynna sér (í bókum og á internetinu) hver þessi maður gæti hafa verið sem hann sá – þessi hávaxni maður í dimmrauða einkennisklæðnaðinum með hattinn – komst hann að þessu með Bergshús og Alexíus. Og honum fór í raun að þykja vænt um myndina af þessum manni; að hann skyldi hafa haft fyrir því að heilsa upp á sig (jafnvel þótt honum brygði illilega). Hann heimsótti meira að segja leiði Alexíusar í Hólavallagarði. En svo dó pabbi ekki löngu síðar. Þá voru þau mamma flutt úr húsinu við Skólavörðustíg. Alltaf þegar ég geng framhjá „gamla Bergshúsi“ verður mér hugsað til þessa næturinnlits gamla lögreglustjórans, hversu einkennilegt það hljóti að vera fyrir manneskju að hitta aðra löngu liðna manneskju sem hún hafði ekki nokkra vitneskju um að hefði verið til, hvað þá hvernig hún leit út. En ég veit ekki af hverju ég er að skrifa þetta. Ég vona að minnsta kosti að ég hafi ekki verið að „láta uppi“ einhverjar tilfinningar.