Væri ég í augnablikinu að skrifa færslu á facebook, finnst mér afar líklegt að hún fjallaði um íslensku sjónvarpsþáttaröðina Ófærð. Mig dauðlangar til að tjá mig um hana. Ekki til að þykjast hafa eitthvert vit á sjónvarpsþáttum, eða til að tilkynna um ánægju eða leiða, heldur frekar til að láta vita af því að ég sé búinn að sjá alla þættina hingað til, nema einn, og hafi í hyggju að horfa á restina. Ég er líka spenntur að vita hvort Stefán Jónsson sjáist eitthvað meira í þáttunum en bara á ljósmynd. Ekki það að mig gruni að hann sé morðinginn, eins og ég heyrði fleygt um daginn; ég hef ekki nokkra hæfileika í þá átt að komast að því hver er morðinginn í svona þáttum; ég er einfaldlega spenntur að vita hvort Stefán sjáist meira í seríunni. Því ég þekki Stefán. Og í raun felst áhugi minn á svona þáttum á borð við Ófærð í því að vita hvort persónurnar í þeim sjáist eða ekki; hvort þær skjóti aftur upp kollinum eftir að þær hafa verið kynntar til sögunnar. Auðvitað má segja að mest spennandi persónurnar í spennuþáttaröðunum (og bíómyndunum líka) séu þær sem aldrei sjást; en um leið og ég segi það (og hugsa), þá geri ég mér grein fyrir að í fyrsta lagi sé erfitt að framleiða þátt – ég tala nú ekki um röð af þáttum – þar sem persónurnar séu einungis kynntar til sögunnar en sjáist síðan ekki eftir það, og í öðru lagi að jafnvel þótt slík framleiðsla væri erfið (og ekki síst fjármögnunin) hlyti útkoman að verða spennandi. Ég sé þetta alveg fyrir mér: í fyrsta þætti seríunnar væru flestar persónurnar kynntar til leiks, en myndu fljótlega hætta að sjást í mynd; og í lok þáttarins væri svo komið að einungis ein eða tvær persónur yrðu eftir, jafnvel ekki svo greinilegar, eins og ef til vill í móðu. Í öðrum þætti seríunnar dúkkuðu síðan upp tvær til þrjár nýjar persónur, þær hefðu einhver óljós samskipti við þær persónur sem enn glitti í úr þættinum á undan, en þær myndu síðan hverfa fljótlega; og smátt og smátt (en í raun mjög fljótt) yrði engin persónanna eftir í mynd; og restin af seríunni yrði þannig séð „mannlaus“; það væri áhorfandans að geta í eyðurnar, eða öllu heldur eyðuna sem sjónvarpsskjárinn sýndi honum. Með því móti gæti serían í raun haldið áfram endalaust; viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, jafnvel ár eftir ár. Í mörg ár. Alltaf á sama tíma, á sama vikudegi, ár eftir ár, nokkra áratugi, hundruð ára; kynslóðirnar myndu allar horfa á sömu seríuna; árið 3016 væri serían sem við horfðum á árið 2016 ennþá í fullum gangi. Með sömu persónum.