Í Bæjarskrá Reykjavíkur frá árinu 1903 er að finna eftirfarandi auglýsingu (myndskreytta): Sigríður Sigurðardóttir Pósthússtræti 14b., sunnan við dómkirkjuna selur: vel tilbúinn MAT, KAFFI og SJOKOLADE og ýmsa óáfenga drykki. Hefir þrjár veitingastofur og nóg af blöðum. Selur mat hvort heldur vill til langframa, eða eina og eina máltíð, margréttaða, ef vill, og hvort sem margir eru eða fáir, eftir því sem húsrúm leyfir. (Þetta orðalag, ef vill, er vannýtt í málinu. Sömuleiðis sögnin að hafa, eins og hún er notuð hér, sbr. „hefir þrjár veitingastofur“. Maður tekur líka eftir því að Sigríður í Pósthússtrætinu var ekki með áfengi á boðstólum. Ef ég væri á samskiptamiðli þar sem vænta mætti viðbragða frá lesendum, þá myndi ég eflaust láta mér detta í hug að spyrja: Man einhver eftir þessari Sigríði sunnan við kirkjuna? Ég átta mig ekki alveg á hvernig matstofan gat verið sunnan við kirkjuna, en samt í Pósthússtræti. Ég hefði haldið að suður af kirkjunni væri Kirkjustræti.)