13. mars 2016

Um leið og ég afþakka það að fá að rifja upp hvernig umhorfs er í eldhúsinu framkalla ég herbergið gamla í huganum, eins og það var áður en við fluttum. Loftið svart, veggirnir dökkbrúnir, svartur ferhyrningur á einum veggnum með öðrum smærri ferhyrningi innan í sem er brúnn eins og veggurinn. Viðarlitaður svefnsófi og skrifborð í sama dökka litnum undir glugganum, svört hljómtæki, dökkrauð slitin pulla, gamall og lúinn skrifstofustóll með örmum, staflar af hljómplötum á fleiri en einum stað í herberginu, og Keith Emerson á veggnum fyrir ofan svefnsófann, sitjandi í svörtum leðursamfestingi á svörtu mótorhjóli með aðra höndina á svörtum hjálmi sem liggur á bensíntankinum. Keith Emerson, þessi mikli galdramaður sem munaði ekkert um að skrifa píanókonserta, að minnsta kosti einn píanókonsert, á milli þess sem hann ferðaðist um á Harley Davidson og lét taka myndir af sér í ensk og þýsk unglingablöð. Það var úr einu slíku blaði sem ég hafði klippt myndina sem hékk á veggnum.

 

(Brot úr sögunni Herbergið mitt, einni af 25 sögum í smásagnaúrvalinu Dulnefnin, sem kemur út í apríl næstkomandi hjá Máli og menningu. Sagan birtist upprunalega í Lesbók Morgunblaðsins, í janúar 2003: http://www.mbl.is/greinasafn/grein/710586/)