Ég sat við hliðina á vini mínum í útför í Dómkirkjunni. Við vorum á svölunum sunnanmegin; það var varla að við sæjum prestinn. Ég spurði hann (vin minn, ekki prestinn): „Manst þú eftir enska póstkröfulistanum, þeim sem við notuðum til að panta plötur frá Englandi – hét hann ekki JoJo Records?“ En þá var dagskrá útfararinnar hafin, og okkur gafst ekki tími til að ræða þetta frekar. Vinur minn náði reyndar að segja mér að hann hefði sjálfur notað einhvern annan lista á sínum tíma, sem hann minnti að kallaðist Windsong; en ég mundi ekki eftir honum. Og eins og fyrr sagði, þá var tónlistin í kirkjunni byrjuð; og bráðum færi presturinn að tala. En á meðan ég reyni að rifja þetta upp með listana ætla ég að spila smá músík. Ég hef verið að hlusta á tríóplötur Paul Motian undanfarið (tvær með Joe Lovano og Bill Frisell, og eina með Jason Moran og Chris Potter), og á eiginlega ekki orð yfir hvað þær eru fínar. Ég sá einu sinni tríóið með JL og BF á Village Vanguard; og náði þar með að sjá Paul Motian áður en hann dó. Ótrúlegur tónlistarmaður. Trommusólóið hans á Survivor´s Suite (með Keith Jarrett) er eitthvað sem reglulega minnir á sig þegar maður er að hugsa um eitthvað annað. Ég mun koma aftur að samtali okkar vinanna í kirkjunni, um póstkröfulistana, en þangað til – og jafnvel lengur – verður þetta að duga: Paul Motian að spila á trommur (ég þekki þessa plötu reyndar ekki, og mig grunar að hana sé ekki lengur að finna í búðum – en kannski á póstkröfulistunum, hver veit?):