Það hefur verið að trufla mig í heila tvo daga að ég skyldi nota orðalagið „það verður að segjast eins og er“ í síðustu færslu – það var eitthvað í tengslum við „norðlenzku“ setninguna úr Bréfi til Láru. Það er eitthvað ógeðfellt við að slá fram fullyrðingu á borð við þessa. Nánast hrokafullt. Ég tek þetta aftur. Og velti því um leið fyrir mér hvort svona orðalag tíðkist í öðrum tungumálum. En ég má bara ekki vera að því að velta því fyrir mér mjög lengi; ég verð að hafa hraðan á, eins og segir í ljóðinu eftir Gottfried Benn. Ég hef öðrum hnöppum að hneppa. Laugardagurinn bíður eftir mér, eins og heitur kaffibolli sem gargar á mann að vera drukkinn áður en hann kólnar. Aftur á móti koma upp í hugann upphafslínurnar úr leikritinu No man´s land eftir Harold Pinter, því stórkostlega verki sem vonandi fer einhvern tíma á íslenskt svið (óbreytt og óstytt, með Eggerti Þorleifssyni og Hjalta Rögnvaldssyni í hlutverkum Hirst og Spooner):
HIRST
As it is?
SPOONER
As it is, yes please, absolutely as it is.