„Kaflastjórnandi“ hefur heyrt því fleygt að sú ákvörðun að breyta yfirskrift þessa prógramms hér á netinu úr „Kafli á dag“ í „Kafla á viku“ hafi verið mistök. Það er reyndar svolítið langt síðan það gerðist. En ég get alveg ímyndað mér að þetta sé rétt hjá þeim sem hafði orð á því. „Kafli á dag“ er þó í augnablikinu ekki mjög aðlaðandi hugmynd fyrir „stjórnanda“ síðunnar. „Stjórnandi“ síðunnar veit í raun ekki í hvorn fótinn hann á að stíga. Hann verður að skoða þetta betur. Taka stöðuna, eins og sagt er. Svo má vel vera að „það liggi ljóst fyrir“ að eitt sé betra en annað; að „Kafli á dag“ henti betur en „Kafli á viku“, eða öfugt. En nóg um það. Til að færsla dagsins fái einhverja „vigt“ eða „tilgang“, þá hefur mér dottið í hug að setja smá músík. Gil Evans verður fyrir valinu: fyrsta lagið á hljómplötu hans, The Individualism of Gil Evans, frá árinu 1964. (Það var annars gaman að fara á Austurvöll í gær. Ég held að á endanum muni íslensku þjóðinni – fyrr en síðar – takast að koma fjármálaráðherra frá völdum – og hans virktarvinum.) Ef fólk á bíl með geisladiskaspilara, þá mæli ég með því að hlusta á Time of the Barracudas undir akstri. (Elvin Jones er beinlínis yfirnáttúrulegur í þessari upptöku.) En til að hlusta á þetta í bíl, þá er best að eiga diskinn. Nema að fólk hafi yfir þeirri tækni að ráða sem gerir því kleift að tengja tölvuna sína (internetið) við græjurnar í bílnum. En allavega, hér er Gil Evans: