21. apríl nk., sem er Sumardagurinn fyrsti, stendur til að verði upplestur á Sunnlenska bókakaffinu á Selfossi. Þar munu lesa upp nokkrir höfundar sem birtu texta í tímaritröðinni 1005, en sú röð var gefin út á árunum 2013 – 2015, og kemur ekki meir – það var ákveðið í upphafi að útgáfurnar yrðu ekki fleiri en þrjár. Mitt framlag í tímaritið var smásagnahefti, Rússneski þátturinn, sem hafði (það er svo gaman að nota þessa sögn svona; Halldór Laxness gerði það – og hann var íslenskur) 9 smásögur. Öll eintök tímaritsraðarinnar eru uppseld. Þau voru 300 eða 350 af hverri útgáfu. Einn höfunda 1005 hefur síðan nýlega gefið út sitt hefti í hefðbundinni bókarútgáfu: Halldóra Thoroddsen gaf út söguna Tvöfalt gler hjá forlaginu Sæmundi; og ég tel mig hafa rökstuddan grun um að fleiri hefti 1005-raðarinnar muni koma út í bókum fyrr en síðar, enda full ástæða til. Í smásagnasafninu Dulnefnin (sjá hér að ofan – það hefur reyndar eitthvað klippst ofan og neðan af kápunni), sem á að koma í kringum Dag bókarinnar 23. apríl, verða 7 sögur af 9 úr Rússneska þættinum. Í raun eru þær átta, því ég splæsti tveimur saman í eina, eða þannig lagað: setti þær undir sömu yfirskrift, þótt í raun séu þær aðskildar. Auk þess lagaði ég eitthvað smávegis í textunum, og kippti út einni og einni setningu. Ég ætlaði reyndar ekki að tala um þetta; ég ætlaði að tala um Bósa Ljósár. Ég geri það kannski næst. En það er allavega upplestur á Selfossi Sumardaginn fyrsta, klukkan fjögur, í einu skemmtilegasta kaffihúsi landsins, Sunnlenska bókakaffinu.