Það var hringt í mig í gær. Ég fékk símtal. Efnislega var símtalið svona: „Útskriftarsýning Listaháskólans verður haldin eftir viku, 23. apríl, og okkur datt í hug að hafa yfirskrift hennar Ytri höfnin. Okkur varð hugsað til ljóðabókarinnar sem þú gafst út [það var árið 1993], og fannst að við ættum að biðja þig um leyfi, eða láta þig vita.“ Ég hef hingað til ekki litið svo á að ég væri eigandi einhverra ákveðinna orða í íslensku orðabókinni, og allra síst þeirra orða sem um ræddi; en þau hjá skólanum langaði til að tengja Ytri höfnina bókinni minni, og ég varð auðvitað upp með mér af því. Og er. Enda gaf ég fúslega leyfi mitt til notkunar á þessum fallegu orðum. Það segir sig líka sjálft að mér fannst þetta mjög vel til fundið, að nota orðin Ytri höfnin yfir sýningu ungra listnema í Hafnarhúsinu. Núna, þegar sólarhringur er liðinn frá hinu óvænta símtali við Listaháskólann, var ég að hugsa um að láta tækifærið ekki liggja ónotað, og birta ljóð úr bókinni gömlu, Ytri höfninni, en ég fékk aðra betri hugmynd, nefnilega þá að birta einungis síðustu línuna í þeirri bók:
… að framtíðin feli í sér óvænta símhringingu
og síðan láta fylgja með fyrsta ljóðið úr næstu bók á eftir (sem heitir Klink), þar sem orðin ytri höfnin koma fyrir (þau gera það nefnilega ekki í bókinni Ytri höfninni, þótt ytri höfn Reykjavíkur komi fyrir á blaðsíðum hennar):
GLÆSTAR SMÍÐAR
Yfir sumarmánuðina
þegar skemmtiferðaskipin eru að sökkva
úti á ytri höfninni
hvert á fætur öðru undir krefjandi aðdáun borgarbúa
verður spurningin um meira eftirlit með skipaferðum
áleitnari
og ekki aðeins áleitnari heldur einnig varpað fram
eins og spurningunni um það
hvers vegna þessar glæstu smíðar
þessi fljótandi samkvæmi sigurs og vonar
sökkvi alltaf að næturlagi
alltaf á þeim tíma sem aðdáun okkar er mest
Í dag, 16. apríl, hafði ég reyndar ætlað mér að gera að umtalsefni nýju bókina eftir Árna Heimi Ingólfsson, Sögu tónlistarinnar, en það verður að bíða betri tíma. Ég veit að sú stóra og fína bók á eftir að staldra frekar lengi við á borðinu hjá mér (áður en hún fer upp í hillu), svo ég mun varla gleyma þessu. Ég las bók Árna Heimis um Jón Leifs fyrir nokkrum árum, og fannst hún bæði fróðleg og skemmtileg. Þegar ég rifja upp þá bók, eða þegar eitthvað minnir mig á Jón Leifs, þá rifjast alltaf upp fyrir mér saga sem mér var sögð af honum – saga sem ekki er að finna í bók Árna Heimis. Jón Leifs var í rútu, og í útvarpinu í rútunni var verið að spila popptónlist, frekar hátt. Jón hafði ekki mikið yndi af popptónlist – honum var mjög illa við hana, held ég megi örugglega fullyrða – og hann stóð upp úr rútusætinu og fór til bílstjórans til að biðja hann um að slökkva á útvarpinu. En bílstjórinn vildi það ekki. Og þeir fóru að rífast, geri ég ráð fyrir. Þessi litla saga af Jóni Leifs endar síðan á því að Jón reif útvarpstækið úr mælaborðinu. Það hefði ég líka gert. Eða viljað gera – en ekki látið eftir mér.