Ég veit um mann sem er prógrammeraður til að skilja ekki peningamál. Eflaust má segja sem svo (eins og oft er sagt þegar rök skortir til að skýra út hlutina) að of flókið sé að útskýra nákvæmlega hvað átt er við með orðinu prógrammeraður; og það verður að duga í bili: hér er ekki pláss til að fara út í svo langa (og flókna) sálma. En hver var það sem prógrammeraði hinn prógrammeraða? Var það einhver nákominn hinum síðarnefnda, eða jafnvel kennari í skóla eða einhver annar utanaðkomandi uppeldisaðili? Er prógrammeringin jafnvel að hluta til á ábyrgð þess sem var prógrammeraður? Getur hugsast að hún sé hluti af einhverju stærra skema? Og – sem er kannski mikilvægari spurning – fékk fórnarlamb hennar eitthvað í staðinn fyrir að skilja ekki peningamál? Ég geri mér grein fyrir að spurningarnar sem þetta vekur eru óteljandi, en geri mér líka grein fyrir að til einskis er að velta þeim fyrir sér. Þegar hringt var í þennan prógrammeraða einstakling ekki alls fyrir löngu, frá bankanum (þeim banka sem hann vissi mætavel sjálfur að var hans eigin viðskiptabanki); og honum boðin ákveðin þjónusta, eða veittar upplýsingar um kjör sem hann myndi njóta að uppfylltum vissum skilyrðum (skiljanlega), þá rétti hann eiginkonu sinni símtólið, en lét þó manneskjuna í símanum (sem var líka kona) fyrst vita að það yrði eiginkona hans sem „tæki símtalið“, eins og hann orðaði það. Eftir á hugsaði hann með sjálfum sér: Er það þetta sem ég fæ í staðinn fyrir að hafa verið prógrammeraður til að skilja ekki peningamálin: að losna við svona símtöl? Er það góður díll? (Og nú verður mér ósjálfrátt hugsað til spurningar Halldórs Laxness varðandi forsetastarfið.) Þegar eiginkona hins prógrammeraða hafði tekið við símanum úr hendi hans liðu hátt í tíu mínútur þar til símtalinu lauk. Sem þýddi að hann gat notað þær tíu mínútur í annað; hann notaði þær til að panta sér bók á netinu: bók sem hann hafði verið að hugsa um í nokkurn tíma. Samkvæmt meldingu sem hann fékk til baka frá söluaðila bókarinnar myndi hún berast til landsins innan sjö til tíu daga. En auðvitað tekur engar tíu mínútur að panta sér bók á netinu, sérstaklega ekki fyrir mann sem er öllu hnútum kunnugur í því ferli; og á meðan hann beið eftir að eiginkona sín kláraði símtalið við konuna í bankanum gluggaði hann í aðra bók sem hann hafði áður pantað sér á netinu, en ekki ennþá lesið. Sú bók fjallaði einmitt um peningamál. Að vísu ekki á praktískan hátt; þetta var ekki leiðarvísir eða sjálfshjálparbók. Þetta var skáldsaga. Og hann ákvað að lesa hana – og helst klára hana – áður en hann fengi nýju bókina sem hann var rétt í þessu að panta. Og í framhaldi af þeirri ákvörðun hugsaði hann eitthvað á þá leið að ef til vill hefði hann sinn persónulega skilning á peningamálum. Hefði honum annars dottið í hug að hann þyrfti að nýta sér „innihald“ síðustu pöntunar sinnar áður en hann fengi þá nýju í hendurnar?