Spánverjar. Andrés Iniesta. Fyrir mig, sem hef ekki mjög yfirgripsmikla tækniþekkingu á fótbolta, er nóg að nefna þetta tvennt, eftir að hafa séð leikinn milli Tékklands og Spánar. Spánverjar/Iniesta. Ég var í öngum mínum. En svo kom markið á 86. mínútu. (Og ég hef ábyggilega misst út úr mér einhverja upphrópun á borð við „Nauh!“, eitthvað svoleiðis. „Nauh!“ í merkingunni „Flott!“) Það má reyndar alveg nefna markvörð Tékka líka, Pétur Tékk. Hann er bæði flottur til höfuðsins og í markinu. En jæja, nú er ég búinn að tjá mig of mikið. Ég ætla ekki að láta Þorstein J. nappa mig á að segja einhverja vitleysu. En þá er líklega best að skipta um umræðuefni, og snúa sér – til dæmis – að íslensku forsetakosningunum. Því líflausa fyrirbæri, sem mér sýnist vera við það að lognast út af og deyja. Ég sé nefnilega ekki annað í stöðunni en að nauðsyn sé komin til þess að blása aftur lífi í þá gömlu hugmynd mína að best væri fyrir þjóðina að hún kæmi sér saman um að velja einhverja látna manneskju í embætti forseta Íslands, nú þegar ekki lítur út fyrir að Andri Snær muni skora nægilega hátt hjá sömu þjóð. Þetta er nú meiri þjóðin. Og nú þegar ég hef nefnt þetta, þá er aftur kominn tími til að skipta um umræðuefni. Ég heyrði nefnilega ansi skemmtileg orð í einum fótboltalýsandanum í gær. Hann var að tala um þjóðsöngva Evrópuþjóðanna. Ef ég man rétt, þá sagði hann eitthvað á þessa leið: „Þegar rússneski þjóðsöngurinn var sunginn, þá bauluðu Englendingar; og þegar enski þjóðsöngurinn var sunginn, þá bauluðu Rússar. Sem sagt allir í stuði.“ Og stuttu síðar sagði sami maður, og var að tala um áhorfendur í stúkunni: „Þeir eru bara þarna hlið við hlið. Girðing á milli. Þannig á þetta að vera.“ Mér er skapi næst að stela þessu og nota í einhvern texta sem ég mun síðan gefa út undir eigin nafni.