Stella, Bankastræti. Ég heyrði lesna auglýsingu frá þeirri búð (þeirri verzlun) rétt áður en útvarpsfréttir hófust kl. 7 í morgun. Ég man eftir að hafa farið í þá búð með föður mínum fyrir jólin til að kaupa Gazella-náttkjól fyrir mömmu. Ég man líka eftir að hafa notað Stellu í skáldsögu: … på et rødt, lodret skilt, som sad fast på det sydvestlige hjørne af det gamle stenhus nummer tre på Bankastræti: Stella. (þrjú på í hálfri setningu? er það ég eða þýðandinn?) Ég man … Reyndar man ég ekki. Ég ætlaði að tala um eitthvað annað hér, nú þegar nóvember nr. 2 er genginn í garð, en mig grunar að boðaður fundur forseta og hins pirraða sérhagsmunavarðhunds úr Valhalla, Háaleitisbraut, hafi ýtt öllum góðum áætlunum úr minninu, að minnsta kosti tímabundið. En Stella, Bankastræti, er betra umræðuefni en Valhalla, Háaleitisbraut. Björt framtíð myndi ekki skaðast af því að kaupa sér náttkjóla í Stellu; ég sé Óttarr og Björt (Bjarta?) og öll hin fyrir mér í fölbleikum Gazella-kjólunum, eins og pabbi keypti fyrir mömmu. Ég man eftir því að pabbi spurði mig: „Hvernig líst þér á þennan?“ Og ég svaraði: „Mér líst vel á þennan.“ „Þá kaupum við hann fyrir mömmu þína,“ sagði pabbi. Og ég man líka þegar mamma opnaði pakkann. Pabbi hefði aldrei kosið Bjarta framtíð, ef hann hefði grunað að þeir opnuðu á þann möguleika að fara í ríkisstjórn með Valhalla-samtökunum. Ég veit reyndar ekki hvað hann hefði kosið í nýafstöðum kosningum; hann var vanur að kjósa Alþýðuflokkinn, og síðan Samfylkinguna (sem hann var hálfpartinn orðinn afhuga áður en hann dó, fyrir tólf árum) – ég get samt alveg ímyndað mér að við hefðum orðið sammála um að kjósa Pírata að þessu sinni, þó ekki hefði verið nema vegna þess að þeir geta ekki hugsað sér að vinna með X-D, og X-D getur ekki hugsað sér að vinna með þeim. En nú er ekki annað eftir en að velja lag: