Þegar ég nálgaðist Hörpu á hjólinu mínu í hádeginu í dag spurði ég sjálfan mig þeirrar spurningar (sjálfan mig, vel að merkja; það var ekki annað fólk nálægt nema nokkrir japanskir túristar, og amerískt par sem ég taldi víst að væri hérna vegna Iceland Airwaves – ég hefði svo sem getað varpað spurningunni til þessara „aðila“, en ákvað að beina henni frekar til mín, þar sem ég sat á hjólinu) hvort Alfred Jarry sálugi VÆRI ennþá hjólandi á hjólinu sínu, VÆRI hann á lífi. Augljósasta svarið VÆRI auðvitað það að Jarry VÆRI orðinn allt of gamall til að vera að þeysast um á reiðhjóli; hann VÆRI orðinn 143 ára gamall (VÆRI hann á lífi); en hitt svarið sem mér kom í hug var að líklegast myndi Jarry ferðast um götur borgarinnar (Parísar – nú eða Reykjavíkur, ef við gefum okkur að hann hefði ákveðið að dvelja hér í Reykjavík í ellinni, orðinn 143 ára gamall, væntanlega einn elsti rithöfundur sem sögur færu af) á mótorhjóli. Jú, ætli það ekki. Ég er kominn heim úr hádegishjólatúrnum (VÆRI varla að færa inn þessa færslu sitjandi á hjólinu), og eftir að hafa velt þessu með Jarry svolítið betur fyrir mér, er ég nokkuð viss um að hann myndi ferðast um götur borgarinnar á mótorhjóli en ekki reiðhjóli, eins og hann var vanur á sinni tíð. Ég ferðast aftur á móti um borgina á reiðhjóli, þegar ég er ekki á bíl eða fótgangandi (eða í flugvél). Oftast er maður fljótari að komast milli staða á reiðhjóli en bíl (innan borgarinnar, það er að segja); í gær var ég til dæmis heilan hálftíma að komast úr Mordor upp í Efstaleiti; ég lenti milli bíla á Kringlumýrarbrautinni, og bíllinn fyrir framan mig var einnig staddur milli bíla, og bíllinn á undan honum sömuleiðis, og svo framvegis. Það hefði tekið mig 12 til 14 mínútur að hjóla úr Mordor upp í Efstaleiti. Það hefði tekið Alfred Jarry sirka 6 til 7 mínútur á mótorhjólinu sínu, hefði hann laumað sér upp á gangbrautina (sem hann hefði auðvitað gert).