8. nóvember 2016

Ég lét mig hafa það að horfa á heilan þátt um Robin Williams í Ríkissjónvarpinu í gær, ætli hann hafi ekki verið sirka klukkustundarlangur, kannski rúmlega það. Og það var ekki minnst á bíómyndina Birdcage, þar sem Robin Williams lék hinn samkynhneigða föður unga mannsins sem hugðist giftast dóttur repúblíkanans, þess sem Gene Hackman lék. Nú sé ég fyrir mér að framleiddur verði þáttur um Gene Hackman, rúmlega klukkustundarlangur, þar sem ekki verður vikið einu orði að bíómyndinni Birdcage. Þessi heimur verður æ skrítnari með hverri mínútunni sem líður, og hverjum þætti sem sýndur er í Ríkissjónvarpinu. Í ævisögu leikkonunnar Claire Bloom er heldur ekki minnst á þátttöku hennar í bíómyndinni The Haunting. Og samt skrifar Claire Bloom ævisöguna sjálf; þetta er sjálfsævisaga. En eins og svo oft áður, þá er þetta (sem ég hef nú gert að umtalsefni) alls ekki það sem ég ætlaði mér að tala um. Ég ætlaði mér að rifja upp setningu úr leikdómi í Fréttablaðinu sem birtist um daginn. Ég hafði punktað þessa setningu niður hjá mér, hún er úr dómi um leikrit eftir Sölku Guðmundsdóttur, Extravaganza, en það er alveg stolið úr mér hver skrifaði dóminn. Setningin er svona:

 

„Þrátt fyrir fögnuðinn sem fylgir ávallt nýjum íslenskum leikverkum þá er einhver ógnvænleg undiralda sem þjakar íslenska leikritun um þessar mundir.“

 

Ég varð mjög hugsi yfir þessum orðum. En veit ekki hvað skal segja. Væri ég sjálfur að skrifa leikrit (sem getur verið að ég sé að gera – það er skilgreiningaratriði), þá fyndust mér þessi orð gagnrýnandans í Fréttablaðinu mjög svo uppörvandi fyrir skrifin; ég myndi hreinlega stökkva á þessa undiröldu sem minnst er á, eins og brimbrettamaður/brimbrettakona sem stekkur á næstu öldu sem hann/hún sér. En undiralda er flóknara fyrirbæri en aldan á yfirborðinu. Satt að segja hef ég ekki hugmynd um hvað þetta merkir. Það var heldur ekki útskýrt neitt frekar í ritdómnum – ég held að minnsta kosti ekki. „Undiralda sem þjakar …“ Ég þyrfti að fletta þessu upp aftur. En þangað til, þá verður þetta að fá að standa svona. Nú bíð ég bara eftir þættinum um Gene Hackman. Þar er leikari með undiröldu. French Connection, The Conversation, Unforgiven … Og Birdcage! Það hefði verið gaman að sjá fleiri myndir með Gene Hackman og Robin Williams saman. Fyrir stuttu las ég að Gene Hackman væri skáldsagnahöfundur. Ég verð að tékka betur á því. Og skoða betur ritdóminn í Fréttablaðinu.