Dagsetningin er of falleg til að láta hana eiga sig (jafnvel þótt hún sé samsett úr sléttum tölum). Ég fór í jólaföndur Rithöfundasambandsins í gær. Í Gunnarshúsi. Þar var ekki svo margt um manninn – hefur verið margmennara (er þessi mynd orðsins í raun og veru til: margmennara?) – en einn höfundanna hafði orð á því að það væri góðmennt. Kannski hefði ekki verið góðmennt hefði sá sem lýsti því yfir (að væri góðmennt) ekki verið meðal gesta. Átti hann ef til vill við okkur tvo þegar hann lét þessi orð falla: að vegna þess að við tveir, ég og hann, værum á staðnum, væri góðmennt? Ég fæ seint svör við þessum spurningum. En góðmennt er einkennilegt orð. Ekki síður en orðið einlægni, sem ég gerði að umtalsefni í fyrradag. (Samkvæmt Árna og Merði þýðir einlægni hreinskilni, það að vera einlægur: 1 sá sem liggur einn, stakur 2 hreinskilinn 3 trúr, tryggur 4 fastráðinn 5 sífelldur, osfrv.) En aftur að góðmennt. Góðmennt gæti verið einhvers konar fag. „Hann er útskrifaður úr góðmennt.“ „Hún lærði góðmennt í fjögur eða fimm ár.“ Sömuleiðis er margmennt athyglisvert orð. „Hann kenndi margmennt í fjölda ára.“ (Þetta hljómar auðvitað svolítið eins og Þórarinn Eldjárn að velta fyrir sér orðum í íslenskri tungu. Kannski er hann nú þegar búinn að afgreiða þessi orð.) En núna ætla ég að snúa athyglinni að annarri veislu en jólaföndri Rithöfundasambandsins, þótt margt megi rifja upp frá þeirri samkomu, ekki síst „færslur“ höfunda á milli „samtalshópa“ á gólfinu, sem er alltaf mjög vert umhugsunar- og umtalsefni. Í þeirri veislu sem ég ætla að hugsa um núna var einnig góðmennt, og að mig minnir frekar margmennt, að minnsta kosti framan af. Þetta var á Bræðraborgarstígnum. Eða við Bræðraborgarstíginn. Á horni Bræðraborgarstígs og Bárugötu. Ástæðan fyrir því að ég leiði hugann að þessu er sú að ég las viðtal og umfjöllun um Sigurð Pálsson skáld í Stundinni í gær. (Nú er ég búinn að nefna tvo höfunda „fyndnu kynslóðarinnar“ í þessari færslu: Þórarinn og Sigurð.) Ég orti nefnilega ljóð um Bræðraborgarstígsveisluna, sem ég birti í bókinni Rómantískt andrúmsloft árið 2012. Ljóðið er eins konar textaskreyting við ljósmynd sem var tekin af okkur Sigurði Pálssyni í þessu boði – mig minnir að þetta hafi verið árið 1988 eða 9. Auðvitað ætti ég að láta sjálfa ljósmyndina fylgja (eins og ég gerði fyrr á þessari síðu minni, þegar ég birti ljóðið Ljósmynd af stefnumóti Benedikts páfa og forseta Íslands í Vatikaninu úr sömu bók), en vegna tillitssemi við okkur báða, Sigurð og mig, ætla ég að láta nægja að rifja upp textann, ekki myndina. Ljóðið heitir photo opportunity:
manstu Sigurður
þegar við sátum í stofunni á Bræðraborgarstígnum
og það var veisla
vegna þess að óvænt gafst tilefni í vinahópnum
til að halda veislu og veislan
var ennþá veisla undir morgun næsta dags
og þá kom aðvífandi Janet
sú ameríska með aflitaða hárið
sú sem í raun var tilefni fagnaðarins
hún kom dansandi með hendurnar út í loftið
eins og miðill í miðjum transi
sem ekki hefur eirð í sér
til að sitja á stól sínum
eins og eitthvað í umhverfinu
sé áþreifanlegra en það
sem hann er að hugsa
og við sátum enn
og horfðum fram þótt engu væri líkara
en að miðill væri að störfum fyrir aftan okkur
við sátum þarna ennþá
í stofunni
í reykmettaðri stofunni
og miðpunktur gleðinnar
hafði færst yfir í eldhúsið
og Janet
Janet var enn í sínum djúpa transi
fyrir aftan okkur
og þá villtist inn í stofuna einn samkvæmisgesturinn
og sá var með vél í höndunum
og hann beindi vélinni að okkur
þar sem við sátum í djúpu plussinu
og það var tekin af okkur ljósmynd
án þess hún væri af okkur
án þess hún væri af okkur