Nú finnst mér ég allt í einu þurfa að velja eitthvað „ársins“. Nú þegar einn dagur er í gamlársdag. Ég á við „besta-eitthvað-ársins“. Þó ekki væri nema til að gefa bróður mínum í afmælisgjöf. Því hann er auðvitað besti bróðir minn. Enda líka sá eini. Ég hafði hugsað mér að skrifa svolítinn pistil um menningarsíðu Fréttablaðsins í gær, þar sem fjallað var um Óþelló-sýningu Þjóðleikhússins og sakamálasöguna Verjandann – mér fannst eins og á þeirri síðu væri Íslensk menning samtímans samankomin í heild sinni: leikhús „inn í samtímann“ og spennusögur „að erlendri fyrirmynd“ – en eins og svo oft áður, þá verður sá pistill að bíða aðeins (og nú veit ég að einhver hugsar: Hver heldur maðurinn að sé að bíða eftir þeim pistli?). Ég hefi ákveðið að velja popplag ársins. Ekki skúrk ársins. Og ekki Sigmund Davíð Gunnlaugsson ársins. Ég ætla að vera á uppbyggilegum nótum: popplag ársins verður sem sagt valið hér í Næsta kafla. Á þessu ári hafa dáið nokkrir tónlistarmenn – kannski ekki rétt að kalla þá alla poppara (án þess að ég hugsi eitthvað niðrandi um það orð, þvert á móti): Leonard Cohen, Prince, George Michael, Leon Russell, Merle Haggard, Phife Dawg (Tribe Called Quest), Maurice White (Earth, Wind and Fire), Paul Kantner (Jefferson Airplane) – ég er eflaust að gleyma einhverjum nöfnum – og síðast en ekki síst þrír popparar sem unglingurinn ég hlustaði hvað mest á þegar unglingurinn ég var unglingur (þótt tveir þessara tónlistarmanna, þeir tveir fyrstnefndu, hafi mjög fljótlega, eða á ofanverðum unglingsaldrinum, verið kippt út af mínum persónulega vinsældarlista og ekki sést þar aftur): Glenn Frey (The Eagles) og Greg Lake (Emerson, Lake & Palmer). Sá þriðji er auðvitað David Bowie. Ekki það að Glenn Frey og Greg Lake séu ekki fínir tónlistarmenn; maður gat bara ekki lengur verið þekktur fyrir að halda upp á þá. Og getur í raun ekki enn – svona er maður svakalega hégómlegur. Og spéhræddur. (Það er samt eitt lag með ELP sem ég rifja stundum upp, án þess þó að hlusta á það; og nokkur lög með The Eagles sem ég slekk ekki á, gerist það að þau byrji allt í einu að hljóma úr útvarpstækinu.) En ókei, þetta er orðinn alveg nógu langur formáli að lagi ársins. Það þarf heldur engan heilaskurðlækni eða geimvísindamann til að finna út hvaða tónlistarmaður á lag ársins að mati Næsta kafla. Það er sem sagt ekki Glenn Frey eða Greg Lake, heldur David Bowie. Lagið kemur samt ekki af plötunni sem hann gaf út tveimur dögum áður en hann dó, í janúar, heldur af plötunni með lögunum úr Lazarus-söngleiknum, þeirri sem kom út í október. Þær plötur voru reyndar tvær: ein með lögunum úr söngleiknum, mestanpart sungnum af leikurunum, en samt líka David Bowie, og síðan önnur með fjórum lögum með David Bowie: Lazarus (af Blackstar) og þremur öðrum sem hann tók upp samhliða Blackstar-lögunum. Þau lög heita No Plan, Killing a Little Time, og When I Met You. Og lag ársins er … No Plan. Þá er það komið á hreint. Næsti kafli hefur valið lagið No Plan sem popplag ársins. Hér mun það þó ekki hljóma í útgáfu Davids Bowie sjálfs (hún er ekki tiltæk á youtube, fólk verður að kaupa plötuna – sem ég mæli með: auðvitað á fólk að kaupa plötuna), heldur í hinni „Verzlunarskólalegu“ útgáfu úr Lazarus-söngleiknum. Útgáfa höfundarins á þessu lagi finnst mér absólút með því besta sem hann gerði – afsakið hátíðleikann – en þessi útgáfa hér, með söngkonunni Sophia Anne Caruso, er líka fín; það er eitthvað mjög krúttlegt við þennan yfirdrifna og nánast naívíska söng, sem, eins og fyrr segir, minnir svolítið á eitthvað sem ég ímynda mér að hljómi í söngleikjunum sem Verzlunarskóli Íslands setur upp árlega. En hey (svo ég vitni í fræga bíómynd, um aðra popptónlistarmenn), let´s boogie! Hér er lagið: