Það er auðvitað mjög fróðlegt að fylgjast með sendingum fólks á milli varðandi sýningu Þjóðleikhússins á Ótelló. Í augnablikinu hentar mér ekki að hafa miklar skoðanir á þessari sýningu, ekki á meðan ég hef ekki séð hana; en ég get ekki annað en verið sammála því sem minnst hefur verið á í einhverjum dómum að vafasamt sé að búa til senu í leikritinu þar sem kvennakór fer að tjá sig um pólitískt ástand á Íslandi. Ef þetta er rétt – að „íslenskt ástand“ sé dregið inn í verk Shakespeares – þá er þetta hluti af þeim viðvarandi plebbisma í leikhúsi samtímans að líta svo á að leikrit þurfi að hafa samfélagslega skírskotun, að það þurfi að „tala inn í samtímann“, og til þess að svo geti orðið, þá sé í lagi að teygja til og aðlaga texta leikskáldanna, jafnvel bæta við hann, eða einfaldlega taka hann í burtu; að leikstjórinn megi gera hvað sem er við upprunalegan texta leikritsins, en samt láta svo líta út fyrir að leikritið sé eftir upprunalegan höfund. Það er erfitt að vera ósammála því að stundum megi „snyrta til“ texta Shakespeares, og jafnvel gera styttingar á leiktextum höfunda á borð við Tsékov; en að bæta inn í texta þessara höfunda finnst mér svakaleg frekja og óvirðing við Shakespeare og Tsékov. Það eru til höfundar – látnir höfundar – sem gáfu þau fyrirmæli á meðan þeir voru lifandi að ekki mætti hrófla við texta þeirra. Þeirra á meðal eru Beckett og Pinter. Og hafi menn gefið svona fyrirmæli, þá á að hlýða þeim. Enda er aldrei ástæða til að stytta texta höfunda eins og Becketts og Pinters. Og þaðan af síður að gera eitthvað við hann, annað en að leika hann (og þýða, þegar þess er þörf) eins vel og hægt er. Í sýningu Þjóðleikhússins á Heimkomu Pinters á síðasta ári var ekki aðeins klippt af textanum, heldur einnig bætt við hann; það var hent inn einhverjum setningum, bara af því að leikstjóranum, eða dramatúrginum, datt það í hug. Mér finnst svo hræðilegt að hugsa til þess sem þarna var gert að ég fæ mig ekki til að hugsa um þetta meira núna, því núna (bara alveg núna) er síðasti dagur ársins (ég þarf að dusta rykið af skúffunni í geislaspilaranum, og ná í plötuna sem ég ætla að spila í kvöld – eitthvað amerískt/írskt), og mann skal vera glaður. Mig langar samt til að hafa nokkur orð um þetta í viðbót, þetta með frekju íslensks leikhúsfólks gagnvart útlendum höfundum, og þá sérstaklega í samhengi við uppsetningu á leikriti Pinters, No man´s land, sem ég sá fyrr í mánuðinum í London; en þetta (eins og flest sem ég brydda upp á) verður að bíða betri tíma. Næsta árs. Sem ég vona að verði betri tími. Næsti kafli verður alltaf að vera betri en sá á undan. En til að slútta þessu núna get ég ekki verið þekktur fyrir annað (því ég hefi fengið áskoranir þess efnis) en að birta myndina af páfanum og grísnum. „Páfinn og grísinn“. Þetta er eins og heiti á sögu í Ævintýrum Æskunnar. Eitthvað klassískt. Enda er myndin af páfanum og grísnum orðin háklassísk. Hér er hún (og gleðilegt ár, kæru landsmenn í vefheimum):