Á blaðsíðu 289 í bók Gests Guðnasonar og Kristínar Ólafsdóttur, ´68 Hugarflug úr viðjum vanans, er mynd af Geirlaugi Magnússyni, skáldi og þýðanda, að stíga grískan dans að loknu Grikklandskvöldi Æskulýðsfylkingarinnar í Kópavogi. Það segir ekki hvenær myndin er tekin, en þetta er einhvern tíma í kringum 1970. Auk Geirlaugs eru á myndinni Gylfi Már Guðbergsson, Magnús Sæmundsson, Páll Halldórsson, Frans A. Gíslason og Ragnar Stefánsson (og einhver einn í viðbót, með hálft andlitið greinanlegt á milli Gylfa Más og Geirlaugs. Svo sést reyndar í bak einnar manneskju til hliðar við Gylfa, sem mér sýnist vera kvenmaður). Eins og segir í myndtextanum stígur Geirlaugur hinn gríska dans í átt að veitingaborðinu; hann kemur úr vinstra horni myndarinnar og dansar sig í átt að hægra horninu, þar sem Páll, Frans og Ragnar standa við borðið, allir glaðhlakkalegir á svip, enda kaffibrúsi á borðinu, sykurkar og nokkrir hvítir bollar. Geirlaugur, sem er í dökkum jakka, líklega flauelsjakka, og svartri skyrtu með bindi, hugsanlega rautt eða blátt (það nær niður á miðjan maga), hann baðar út höndunum, lætur fingurna vísa niður í gólfið, og er dreyminn á svip – það er eins og grísk tónlist hljómi í kaffistofunni, sem ég efast þó um að hafi gert í raun og veru; það eina sem minnir á Grikkland á myndinni (fyrir utan Geirlaug að dansa gríska dansinn) er plakat á veggnum fyrir aftan Gylfa Má, sem á stendur Frihet åt Grekland. Þessi mynd er alveg stórkostleg. Ég hvet alla til að fletta upp á bls. 289 í ´68 Hugarflug úr viðjum vanans, og skoða hana. Auðvitað er svolítið einkennilegt að Geirlaugur sé ekki með sígarettu á henni, hvorki í munninum né höndunum, en ég geri ráð fyrir að hann hafi kveikt sér í einni eftir að hann fékk sér kaffið sem bíður á borðinu – þangað sem hann stígur hin grísku dansspor. Kannski hefur hann verið með pakka af Hellas í tilefni dagsins? Ég giska samt á að í jakkavasa hans sé pakki af Gauloises. Mikið er óþægilegt að geta ekki framkallað hreyfingu í svona ljósmynd, að fá ekki að vita hvað gerist á næsta augnabliki. Ragnar Stefánsson horfir þannig á kaffibrúsann á borðinu að maður ímyndar sér að hann hafi áhyggjur af því að ekki sé nóg kaffi í honum fyrir alla á myndinni, plús auðvitað hina sem eru fyrir utan rammann.