Rétt áðan, þegar ég fékk mér með kaffinu eina 40% fuldkorn-kexköku frá Svíþjóð, með „custard“ ofan á (ægilega fínu „spreði“ sem kom sem gjöf inn á heimilið um daginn), þá vildi ekki betur til en svo, á því augnabliki sem ég opnaði efri skápinn í eldhúsinu til að ná mér í kaffibolla, að ég hóstaði mjög kröftuglega (búinn að vera með flensu, og eitthvað aðeins eftir af henni); ég var nýbúinn að stinga upp í mig bita af kexkökunni með spreðinu, og við hóstann opnaðist munnurinn, og þónokkur hluti kexbitans líkt og þaut út úr honum, og inn í skápinn, yfir undirskálar og utan í veggi nokkurra kaffibolla, og ofan á hilluna í skápnum – það tók mig svolítinn tíma að hreinsa þetta upp. En það er frá núna. Ég má aftur á móti til með að segja frá öðru sem gerðist um daginn. Ég fór á hádegisfund í Háskólanum, sem haldinn var í tilefni af umræðunni um leikritið Gott fólk. Ég fór með Hermanni Stefánssyni. Við erum nágrannar, við Hermann. Það varð að samkomulagi að hann myndi ná í mig á sínum bíl (reyndar var það ekkert rætt sérstaklega; hann einfaldlega hringdi í mig og spurði hvort hann ætti ekki að kippa mér með; hann væri að fara á sínum bíl); og síðan eftir fundinn keyrði hann okkur Halla Jóns, sem við hittum á fundinum, til baka; mig heim til mín og Halla upp í Listaháskóla, þar sem hann var að fara að kenna. Það er erfitt að hugsa sér betri félagsskap í bíl en þá Hermann og Halla. Þegar við ókum sem leið lá burt frá Háskólanum (Hermann hafði lagt bílnum í Aragötunni) ræddum við eitthvað um efni nýliðins fundar, en svo þegar við fórum yfir Tjarnarbrúna byrjaði ég allt í einu að tala um hús Thors Jensen við Fríkirkjuveginn. Bara eins og allt í einu, eins og mér fyndist að við þyrftum nauðsynlega að skipta um umræðuefni (sem var þó alls engin ástæða til). Ég skil ekki hvað mér gekk til, enda væri ég ekki að minnast á þetta hér ef ég botnaði eitthvað í því. Við Hermann og Halli ræddum eitthvað aðeins um hús Thors (sem núna er í eigu afkomanda hans, Björgólfs Thors), og út frá því ræddum við um íslenska tónlistarmenn sem við höfðum séð spila í kjallara hússins fyrir mörgum árum, nokkrum áratugum. Það var því ekkert meira talað um hádegisfundinn og allt það sem á honum var rætt. Hermann lét mig síðan út úr bílnum á horni Borgartúns og Nóatúns; Halli hélt áfram með honum í átt að Laugarnesinu.