12. febrúar 2017

Virkilega gott spjall um virkilega góða bók. Jórunn Sigurðardóttir, Lára Magnúsardóttir og Gunnþórunn Guðmundsdóttir tala saman um skáldsögu Sigrúnar Pálsdóttur, Kompu:

 

http://ruv.is/sarpurinn/ras-1/bok-vikunnar/20170212

 

Nú vildi ég að væri á facebook til að geta látið „alla“ vita. En það vill svo til að höfundur bókarinnar, sem rétt í þessu var verið að ræða um í Ríkisútvarpinu, vill ekki að ég sé á facebook. Og ég er alveg sammála honum. Ég skráði mig einu sinni, í leyfisleysi, á facebook – það var síðla kvölds; dómgreindin alveg að sofna – og á næsta augnabliki komu svo margar „vinabeiðnir“ (sjálfvirkt), og frá svo mörgum „vinum“, að ég beinlínis hljóp í burtu frá tölvuskjánum, rétt eins og tollvörðurinn Henri Rousseau hljóp í burtu frá striganum þegar hann hafði málað á hann hið illúðlega ljón. Það þurfti talsvert átak af minni hálfu til að nálgast skjáinn að nýju til að afturkalla skráninguna. En viljinn varð óttanum yfirsterkari. Nóg um það að sinni. Ég vil bara ítreka ábendinguna til „vina“ Næsta kafla um að hlusta á spjallið í Bók vikunnar, hafi þeir ekki þegar gert það.