Ég hefi ákveðið að stofna Kommúnistaflokk Íslands. Ekki samt ég sjálfur, heldur maður sem ég þekki. Og raunar er það ekki heldur sá maður, heldur allt annar. Flokkurinn verður stofnaður (sem ef til vill er ekki rétt orðalag; það er kannski nákvæmara að tala um að blásið verði lífi í lík hans) þann 17. júní nk., og í merki flokksins verður mynd af andliti Barrys Manilow (sem núna er nýkominn út úr skápnum sem hómósexúal). Stofnfundur verður haldinn í Hólavallakirkjugarði, miðja vegu milli Suðurgötu og Ljósvallagötu, og tímasetning fundarins vel valin; hann mun hefjast klukkustund áður en borgarstjóri Reykjavíkur (Dagur B. Eggertsson) kemur inn í garðinn ásamt sínu fólki og leggur blómsveig að leiði Friðriks Friðrikssonar skátahöfðingja. En nú að klæðnaði flokksmanna Kommúnistaflokksins. Þeim verður gert að klæðast bláum Paul Auster-gallabuxum (sömu tegund og Gunnar Smári Egilsson hannaði fyrir bókaútgáfuna Bjart fyrir rúmlega tuttugu árum), og hafa merki í jakkaboðungnum með myndinni af Barry Manilow. Þessar reglur munu gilda jafnt um konur og karla. Ég, sem er ekki stofnandi flokksins, eins og fyrr segir, heldur einungis sá sem segir af honum tíðindin, varð kommúnisti ungur. Það gerðist þegar ég las ljóð hins sænska Harrys Martinson, Sæsímaskip, í þýðingu Jóns úr Vör. Seinna hætti ég þó að vera kommúnisti. Það gerðist þegar ég seldi fjármálafyrirtækinu Gamma í Garðastræti langa smásögu, byggða á reynslu minni frá Bögglapóststofunni í Tryggvagötu. Nú (árið 2017) er hins vegar svo komið (fyrir mér) að ég hefi aftur gerst kommúnisti. Það gerðist núna mjög nýlega, þegar ég las ljóð Harrys Martinson, Sæsímaskip, aftur. Ég fékk nefnilega í hendurnar nýja heildarútgáfu bókaforlagsins Dimmu á ljóðum og ljóðaþýðingum Jóns úr Vör, ansi hreint fína bók. Nú grunar mig – og það segir sig eiginlega alveg sjálft – að lesendur þessa fréttapistils sjái fyrir sér að ljóð Harrys verði lesið í Hólavallagarðinum við stofnun Kommúnistaflokksins. En það mun ekki gerast. Á stofnfundinum verður enginn lestur. Þar verður þvert á móti hrein þögn (sem reyndar er alltaf blönduð einhverjum hljóðum, í nágrenni Suðurgötu), til að leggja áherslu á hversu fánýtur og tilgangslaus hann verður, hávaðinn sem mun fylgja komu borgarstjóra inn í garðinn, þegar hann, með sínum embættismönnum og áhangendum, stormar í áttina að leiði skátahöfðingjans með sín málmgjöll og blómsveiga. Aftur á móti ætla ég að birta hér á síðunni ljóð Harrys Martinson, nú þegar ljóðið hefur tvívegis á ævi minni gert mig að kommúnista. Það flögraði að mér að láta fylgja ljóðinu lag sungið af „merkisbera“ Kommúnistaflokksins, Barry Manilow (sem hefði verið vel við hæfi: Harry / Barry, osfrv.), en svo fannst mér meira viðeigandi að láta þögn umlykja Sæsímaskipið, ekki bara til að vísa í sæstrenginn í hafinu, heldur líka til að minna á þá þögn sem mun ríkja að morgni 17. júní nk., þegar Kommúnistaflokkur Íslands verður stofnaður (og letraður í stein) í Hólavallagarði, rétt hjá þeim stað þar sem gamla líkhúsið stóð.
Sæsímaskip
eftir Harry Martinson
Á fimmtándu gráðu norðlægrar breiddar og sextándu vesturlengdar,
milli Barbadó og Tortúgu hófum við sæsímastrenginn úr djúpi Atlantshafsins,
brugðum ljóskerum okkar að sárinu
og bárum í það nýja gúmmíkvoðu.
Þegar við lögðum hlustir að trosnaða staðnum,
heyrðum við hvernig suðaði í strengnum.
– Það eru milljónakarlarnir í Montríol
og Jóhannesarborg að tala um Kúbusykurinn
og að lækka við okkur launin, sagði einn okkar.
Lengi stóðum við hugsi í skjóli vinnuljósanna,
við hinir þolinmóðu slæðendur sæstrengja,
svo sökktum við viðgerðum strengnum
í dýpi hafsins, þangað sem hann átti að vera.