Ég tek allt til baka sem ég sagði um sumardaginn fyrsta í fyrri færslu dagsins. Sumardagurinn fyrsti er góður dagur, og uppbyggjandi fyrir – ég segi ekki líkama, en að minnsta kosti sál. Barnið fær nýja strigaskó (eftir að hafa spænt upp þeim gömlu á snævilögðum strætum borgarinnar), og ég fæ (eða fékk, því það gerðist í gær, á miðvikudeginum) nýjustu plötuna með Iggy Pop, Post Pop Depression. Það er sem sagt mín sumargjöf í ár. Og engin smá gjöf! Faðir minn heitinn varð alltaf mjög kátur þegar hann heyrði nafnið Iggy Pop (þótt hann vissi svo sem ekki mikið um manninn á bakvið það nafn, James Newell Osterberg) – ég varð ekki minna kátur þegar ég hlustaði á þessa nýju plötu Iggys. Hún er mikið fín. Mikið rokk. En líka popp innan í rokkinu: Post Pop Depression. Ég ætla ekki að taka fulla ábyrgð á þeirri skoðun minni, en ég held að titillinn passi vel við plötuna. Hljómurinn er svolítið eins og hann sé búinn til í kringum 1980. Og hér er fyrsta línan í laginu Sunday: This house is as slick as a senator´s statement …