Fyrir bloggara hafa síðustu dagar verið djúp uppspretta bloggs. Eurovision; enn eitt „óþæginda“-málið í nafni forsætisráðherra Íslands (sem auðvitað er óþægilegast fyrir alla aðra en hann); nýr franskur forseti í Frakklandi; sumar á Íslandi (í byrjun maí), en síðan aftur vetur (um miðjan maí); sveitaferð (bloggarans); Bjarni Bernharður og Rithöfundasamband Íslands (og öfugt); og þannig gæti ég haldið áfram að telja upp, eins og „enginn væri morgundagurinn“; en ég er með hugann við allt annað. Ég er með hugann við gömlu hlöðuna í sveitinni þar sem bloggarinn er staddur. Og snöruna (eða snærið) sem hangir niður úr þvertrénu í hlöðunni. Og nú sé ég fyrir mér að fólk – ég tala nú ekki um skyldmenni (sem reyndar munu fæst lesa þessa færslu) – fari að hafa áhyggjur. En geti maður valdið áhyggjum, þá á maður að grípa hvert tækifæri. Í gær gekk ég upp að vörðunum þremur efst í „Hlíðinni“. Ég kom ekki nálægt hlöðunni (ekki í þetta skiptið), en ég hugsaði þeim mun meira um þessa gömlu hlöðu (sem er til sölu á fasteignavefnum, ásamt jörðinni sem hún stendur á); og núna eru þær hugsanir að taka á sig form snörunnar, þeirrar sem hangir (óhnýtt) niður úr burðarbitanum efst í hlöðunni. „Snaran“ er með öðrum orðum saga (í fjórum hlutum; ég hef tilhneigingu til að skipta sögum upp í fjóra hluta – og nú man ég eftir sögu Jakóbínu Sigurðardóttur, Snörunni); hún er komin á blaðið að mestu leyti, uppkastið að henni – mér sýnist að það verði gerð mynd eftir henni). En núna er ég svolítið að hugsa um myndefnið sem ætti að fylgja þessari færslu, sérstaklega vegna þess að mér sýnist að sex dagar séu liðnir frá síðustu færslu (og þess vegna skulda ég lesendum gott myndefni). En það sem ég heyri frá Gísla Marteini sjónvarpsmanni í augnablikinu er eitthvað að trufla mig; hann (Gísli) er í þessum skrifuðu orðum að lýsa Eurovision-keppninni í Kænugarði; hann er búinn að segja svo margt, og það er engu líkara en að hann sé drukkinn. En auðvitað er hann ekki drukkinn, hann er að lýsa einhverri mest „sober“ samkomu sem haldin er í Evrópu, og varla er verið að halda að honum áfengi í Úkraínu. Það er ég sem hlýt að vera drukkinn. Ég er undir áhrifum frá hugmyndinni um snöruna. Og því hvernig ég muni líta út að innan þegar krufningin fer fram (þótt ég skilji ekki alveg hvers vegna krufning þarf að fara fram á manneskju sem kýs að fara í snöruna). Nei, ég er bara með hugann við myndina sem ég sá í gær (í DVD-tækinu): Once upon a time in Anatolia. Nuri Bilge Ceylan býr til einhverjar mögnuðustu bíómyndir sem ég hef séð. Vetrarsvefn (síðasta myndin hans) er ógleymanleg bíómynd (held ég; maður gæti hafa gleymt henni eftir einhver tíma), en þessi sem ég sá í gærkvöldi var jafnvel enn betri. En aftur að Gísla Marteini: ég er að hlusta á hann. Og næsta lag er Ísland – Svala.