Nú veit ég hvað það var sem truflaði mig í gær, á meðan ég hlustaði á ódrukkinn Gísla Martein segja frá atburðarásinni í Kiev. Truflunin var sú tilfinning mín að Svala Björgvinsdóttir myndi ekki komast áfram í Júróvisjón. Ég nefnilega vissi að hún kæmist ekki áfram, rétt áður en sú staðreynd lá á borðinu; og ég vissi það líka (aðeins áður) eftir að ég hafði heyrt nokkur önnur lög í þessari evrópsku keppni (man reyndar ekki eftir að hafa heyrt ástralska lagið, og hið ísraelska – þessi keppni verður alltaf skrítnari með hverju árinu). Mig grunar að hið heilnæma sveitaloft í Borgarfirðinum hafi virkjað hina spámannslegu stöð í vitsmunalífi mínu. Ég varð allt í einu eins konar Weegee: ég kom á vettvang áður en hinir gerðu það; ég vissi betur, á undan hinum (án þess þó að segja frá því). Ég nefni Weegee bara vegna þess að rétt í þessu var ég að lesa í ævisögu Diane Arbus um starfsbróður hennar Weegee (hvers ljósmyndabók bíður mín heima í Reykjavík til að skoða, nú þegar ég hef lesið um hann) að nafnið hans, Weegee (hann var skírður Arthur Fellig), hafi orðið til út frá orðinu ouija, sbr. ouija-board, andaglas, vegna þess að Weegee vissi alltaf á undan öllum hinum ljósmyndurunum í New York ef einhver hafði verið myrtur í borginni, eða eitthvað ljósmyndunarvert (í myrkari kantinum) hafði gerst. En hvernig vissi hann það (burtséð frá andaglasinu og öllu því)? Eins og Áslaug á Grenimel var Weegee með lögregluradíó. Þannig að hann fékk upplýsingarnar um leið og löggan. En hið einmana skáld í Hvítársíðunni (bloggarinn í Borgarfirðinum) hefur ekki bara verið að lesa um Diane Arbus og Weegee (og Howard Nemerov, bróður Diane); það hefur líka – til að forða sjálfu sér frá því að fara í hlöðuna – skrifað um menn sem hengja sig í hlöðunni; það hefur fylgst með nýjasta „óþæginda“-máli Dónalds Trömp í fréttunum (og til hliðar með „óþægindum“ ísl. forsætisráðherrans, þótt fréttir af þeim „óþægindum“ séu orðnar gömul tíðindi, og væntanlega gleymdar); og það hefur tekið á móti tveimur góðum vinum (og góðum hundi) – en það var í gær – og það hefur jafnað sig á þeirri reynslu að horfa á Once upon a time in Anatolia með því að rifja upp Withnail & I (sem er auðvitað myndin til að horfa á í sveitinni, að minnsta kosti á meðan maður hefur ekki til taks The Straight Story). En svo er annað: veðrið í Hvítársíðunni (blóma Borgarfjarðar) er slíkt að húsið utan um skáldið hristist til á tíu til tólf mínútna fresti, líkt og um jarðskjálfta sé að ræða, og það er barið að utan með birkinu sem umlykur það. Það blæs. Og menn eru farnir að kvíða nóttinni. Þetta kallar á svefnlyf. Þetta kallar á það að maður endurskoði trúarskoðanir sínar, og lýsi yfir einhvers konar trúarsannfæringu. En aftur kemur upp spurningin um myndefni. Á ég að færa mynd úr myndavélinni yfir í tölvuna, og freista þess að birta hana? Nýlega mynd úr sveitinni?