Þá er ég kominn úr Reykholtssveitinni. Það eru næstum tvær vikur síðan. Reyndar fór ég aftur þangað í millitíðinni – það gerist nefnilega flest í millitíðinni; það er þá sem hlutirnir gerast. Og í þessari millitíð hef ég eignast starfsfélaga – ég hef ekki haft starfsfélaga í að minnsta kosti hálfan annan áratug. Hann heitir Basil. Hann situr á skrifborðinu mínu, oftast á hvítum, útkrotuðum örkunum – hann vill ekki að ég sjái hvað stendur á þeim – og þegar ég þarf að sjá hvað stendur á þeim færi ég Basil yfir í stólinn á móti skrifborðinu, hinum megin í herberginu, og yfirleitt sættir hann sig við það. Hann vinnur þá bara þaðan. Basil fór til læknis í gær. Það var fyrsta heimsókn hans til læknisins. Hann fékk sprautu. Og var neyddur til að kyngja lítilli töflu. Svo fékk hann eins konar fótsnyrtingu. Heimsóknin til læknisins var svolítið ferðalag fyrir Basil, en hann jafnaði sig. (Sagði ekki eitthvert ísl. skáld að lífið gengi út á það að jafna sig?) Ég er sjálfur á leiðinni í ferðalag næstu helgi, en þegar ég kem aftur heim, þá er ég að hugsa um að horfa á einn eða tvo þætti af Fawlty Towers með Basil. Ég er ekkert viss um að hann hafi gaman af þeim. Og kannski leigi ég James Bond-mynd með Roger Moore, með það fyrir augum að minnast leikarans. Þegar fréttin um andlát hans birtist í fyrradag fannst mér eins og faðir minn hefði dáið aftur. Þeir voru ekkert líkir undir lokin – það er að segja Roger Moore aldraður var ekki svo líkur föður mínum – og kannski voru þeir alls ekkert líkir; en Roger Moore (áður en hann varð aldraður) minnti mig alltaf á pabba, og pabbi minnti mig á hann. Auðvitað var Roger Moore besti James Bond-leikarinn. Þetta með Sean Connery hef ég aldrei skilið. Svo fannst mér Pierce Brosnan fínn. Ég sá annars Pierce Brosnan í útför Sigurðar A. Magnússonar um daginn. Þar gekk hann undir nafninu Karl Th. Birgisson. Mér eiginlega dauðbrá. En ég hefi jafnað mig núna: ég hefi skrifað mig frá sjokkinu. En hvað næst? (Hvernig nálgast maður nýju Twin Peaks-þættina? Getur einhver hjálpað mér? Ég kláraði Better call Saul nr. 2 um daginn, og núna öskrar minn innri maður á Twin Peaks nr. 3.) Hvað næst? Þá á ég við: Hvað gerist núna í Næsta kafla? „Hvað eigum við að gera næst?“ eins og segir í Herman eftir Jim Unger. Ég þarf að hleypa Basil inn á skrifstofuna; hann er orðinn of seinn í vinnuna. Og kannski setja smá músík til að lokka hann inn um dyragættina: