Það verður ekki tekið af mannfólkinu að það er skrítið. People are strange. Það er að segja þegar upp sprettur umræða um Sjómanninn á veggnum og Hjörleif Guttormsson. Ég las einhvers staðar (á samfélagsmiðli) að Hjörleifur væri að sýna sjómönnum í landinu óvirðingu með því að vilja myndina af þeim (eða fulltrúa þeirra) burt af fallegum hvítum vegg í bænum (vegg sem nú er orðinn helmingi fallegri en hann var nokkurn tíma, eftir að sjómaðurinn fór af honum). Svo las ég líka að sjávarútvegsráðherra væri að hugsa um að láta mála þennan sama sjómann aftur á vegginn. Það er ekki bara að mannfólkið sé skrítið; sjávarútvegsráðherra er orðinn stórskrítinn líka. Nú óttast ég mest – fyrst öll þessi samúð með sjómanni á vegg er komin upp á yfirborðið – að gefið verði leyfi á fleiri myndir af ólíkum starfsstéttum á veggi bæjarins, að borgin muni fyllast af tíu metra háum myndum á útveggjum húsa, að borgarbúar nái ekki að einbeita sér að akstri – ekki einu sinni að göngu, eða hverju sem er; allra síst sínum eigin hugsunum – vegna þess að … Á Menningarnótt næsta árs verður (sé ég fyrir mér) afhjúpuð mynd af Ráðherranum á norðurvegg Stjórnarráðsins; á Degi íslenskrar tungu (sem ég man reyndar ekki hvenær er á árinu) mun blasa við okkur Rithöfundurinn (í allri sinni stærð) á vesturhlið Þjóðmenningarhússins; og ef við færum okkur út fyrir borgina (sem mig grunar að muni gerast þegar skriðan er farin af stað, og ekki verður úr nógu mörgum veggjum að spila á stór-Reykjavíkursvæðinu), þá fáum við Fangann á framhlið Litla-Hrauns. Ég er að hugsa um að bjóða Hjörleifi Guttormssyni í kaffi til að ræða málin. Við munum ekki setjast niður á Kaffi Loka á Skólavörðuholti (þar munum við aldrei fá vinnufrið fyrir Vinum Sjómannsins); við munum frekar koma okkur fyrir í horninu á Babalú við Skólavörðustíginn (látum okkur stíginn nægja, í staðinn fyrir holtið) – á Babalú má frekar vænta þess að verði að finna fólk af þeirri gerðinni sem ekki hefur samúð með Sjómanninum á veggnum. Ég ætlaði reyndar að fjalla um Söngvarann í Ríkissjónvarpinu í þessari færslu, Friðrik Dór (Dóra?), en það verður að bíða betri tíma. Ég ætlaði líka að segja frá Myndljóðasýningu Óskars Árna Óskarssonar í Borgarbókasafninu í Grófinni; en nú óttast ég að Óskar muni ekki fá neina samúð út á það að ég – andstæðingur Sjómannsins á veggnum – sé að tala vel um hann (Óskar) í sömu færslu og ég er að níða stígvélið af Sjómanninum. Þannig að ég bíð með umfjöllun mína um Myndljóðasýninguna. Ekki fara að sjá hana strax – bíðið þar til að umræðan um Sjómanninn er yfirstaðin. Það sem hins vegar vefst fyrir mér í augnablikinu er hvort ég þurfi ekki að hafa myndefni með færslu sem þessari – til að draga athyglina frá umfjöllun minni um Sjómanninn. Ég ætla að fletta upp í „myndbanka“ mínum og athuga hvað ég finn. (dok) Ég datt niður á þetta: