Í þessum færslum mínum hef ég rekið mig á að ef ég nefni í einni færslu að ég ætli að gera eitthvað ákveðið að umtalsefni í þeirri næstu – ef til vill vegna þess að í augnablikinu hafi ég ekki tíma til þess, eða þurfi að láta eitthvað annað meira aðkallandi ganga fyrir – verður yfirleitt ekkert úr því að ég nefni það sem ég frestaði, en lofaði að nefna næst. Til dæmis nefndi ég í fyrradag, ef ég man rétt, að ég ætlaði að tala um Myndljóðasýningu Óskars Árna Óskarssonar í Borgarbókasafninu, en enn hefur ekkert orðið af því (nema þá í þessu formi hér: að láta þess getið að ég hafi ekki talað um sýninguna). Að vísu er Myndljóðasýningin þess eðlis að líklega er óþarfi að hafa mörg orð um hana, önnur en þau að hún er til staðar. Myndljóðin skýra sig sjálf. Ég hlustaði á Óskar „lesa upp“ úr þeim um daginn, á opnun sýningarinnar, og þá kom á daginn að þessi ljóð, sem ort eru á Silver Reed ritvél, og byggja á táknum lyklaborðs vélarinnar, gera sig jafnvel betur í upplestri en önnur ljóð sem ekki er hægt að kalla myndljóð í sama skilningi og Silver Reed-ljóðin. Og nú, þegar lítur út fyrir að umræðan um hinn horfna sjómann á Skúlagötunni sé búin í bili, þá er óhætt að mæla með sýningu Óskars í Grófinni. Eins og glöggir lesendur muna eftir, þá nefndi ég líka í fyrradag að ég ætlaði að tala um Söngvarann í Ríkissjónvarpinu á Menningarnótt, en glöggir lesendur vita líka að „ef ég nefni í einni færslu að ég ætli að gera eitthvað ákveðið að umtalsefni í þeirri næstu – ef til vill vegna þess að í augnablikinu hafi ég ekki tíma til þess, eða þurfi að láta eitthvað annað meira aðkallandi ganga fyrir – verður yfirleitt ekkert úr því að ég nefni það sem ég frestaði, en lofaði að nefna næst.“ Þannig að. Og nú er komið í ljós að stuðningur landsmanna við ríkisstjórn Íslands mælist 27,2%. Mér sýnist að eina haldreipi þessarar stjórnar sé (séu?) einkunnarorð menntamálaráðherra hennar (sem þannig séð eru það eina sem hann hefur fram að færa í sínu embætti): „að vona hið besta“. Mér sýnist líka að í stöðunni sé ekki um neitt annað að ræða en að enda þetta á tóndæmi. Fyrir valinu verður eftirlætismúsík aðstoðarmanns míns, Basils hins fjórfætta (að minnsta kosti þegar sólin skín; hann er meira fyrir Anton Webern þegar sólin skín ekki):